Veggjöld verði til þess að flýta gerð vegar yfir Öxi

Til greina kemur að heimila Vegagerðinni að taka lán, sem síðar verði greitt upp með veggjöldum, til að flýta gerð vegar yfir Öxi og fleirum samgönguverkefnum. Eins eru uppi hugmyndir um að taka upp gjaldtöku í jarðgöng sem þegar hafa verið byggð til að fjármagna fleiri í framtíðinni.

Drög að frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjármögnun einkaaðila á einstökum vegköflum hefur verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í sumar en ráðherra hyggst leggja frumvarpið fram á haustþingi.

Með frumvarpinu er annars vegar leitað heimilda til að fela einkaaðilum umsjón vegaframkvæmda og fjármagna þær með notendagjöldum, hins vegar gerði Vegagerðinni gert heimilt að stofna félög utan um einstök verkefni. Þau félög geti tekið lán sem síðan verði greidd niður með veggjöldum. Nýr vegur yfir Öxi er meðal þeirra sem fallið gætu í síðarnefnda flokkinn.

„Hugmyndin er að ríkið greiði hluta stofnkostnaðarins, svo fái Vegagerðin heimild til að taka lán til að framkvæmdirnar gangi sem hraðast. Það lán verði síðan greitt til baka með notendagjöldum eftir að framkvæmdum lýkur,“ segir ráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson.

Umferðaröryggi hefur verið í forgangi við mótun samgönguáætlunar og þar hefur áherslan verið á umferðarþyngstu vegina. Sigurður Ingi bendir á að í samkeppni við þá um fjármagn færist framkvæmdir eins og Axarvegur aftar í forgangsröðunina. „Með þessari leið er hægt að framkvæma hraðar,“ segir Sigurður Ingi.

Veggjöld í öll jarðgöng?

Sigurður Ingi segir til greina koma að fjármagna fleiri samgönguframkvæmdir með einhverri útgáfu notendagjalda. Færeyingar hafa um skeið farið blandaða leið við fjármögnun jarðganga, ríkið hefur greitt hluta á móti tekjum af veggjöldum.

Á tveimur fundum sem Sigurður Ingi hélt á Austurlandi nýverið varpaði hann þeirri hugmynd fram að hefja gjaldtöku í þau jarðgöng sem þegar hafa verið gerð á Íslandi, nema þau allra elstu. Annars vegar til að standa undir viðhaldi og rekstri viðkomandi gangna, hins vegar til að búa til sjóðsstreymi sem nýtist til framkvæmda við næstu göng.

Starfshópur samgönguráðherra um göng til Seyðisfjarðar telur í nýrri skýrslu ekki koma til greina að ráðast í gangagerð á Austurlandi eingöngu fjármagnaða með lánum sem greidd yrðu niður með notendagjöldum, enda nemur kostnaður við gangagerð tugum milljarða.

Hins vegar taldi hópurinn hægt að áætla tekjur upp á 400-500 milljónir króna á veggjaldi í gegnum göngin. Það gæti staðið undir kostnaði við rekstur og viðhaldi ganganna en litlu sem engu skila til stofnkostnaðarins. „Það kemur til greina að fara blandaða leið eins og Færeyinga. Við sjáum ekki fyrir okkur að notendagjöld eins og sér myndu greiða Fjarðarheiðargöng,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við Austurfrétt.

Ýmsir tilbúnir að lána til samgönguframkvæmda

Á íbúafundi, sem haldinn var á Egilsstöðum, sagði hann umferðina um göngin ekki næga. Veggjöldin væru þó fýsilegt til að standa undir rekstrinum, meðal annars því heimamenn hefðu lýst yfir jákvæðni gagnvart þeim.

Á íbúafundinum, aðspurður um hvort lífeyrissjóðirnir væru tilbúnir að fjármagna gangagerð, sagði Sigurður Ingi að ýmsir aðilar hefðu sýnt áhuga á að koma að fjármögnun samgönguframkvæmda hérlendis eftir að umræðan um veggjöld fór af stað.

„Lífeyrissjóðirnir eiga nóg af peningum en hvorki mega né vilja setja peninga í framkvæmdir nema til þess að ávaxta fé sitt. Hins vegar hefur ekki stoppað bankið á dyrnar hjá síðan við fórum að tala um nýja fjármögnun samgönguframkvæmda. Það eru margir tilbúnir að lána, bankar, Norræni fjárfestingabankinn, lífeyrissjóðirnir. Ég held að við séum á góðum tíma því vextir fara lækkandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar