Vegir áfram lokaðir

Útlit er fyrir að helstu leiðir út frá Austurlandi sem og fjallvegir í fjórðungnum verði lokaðir áfram fram til kvölds. Stöðugleiki er að komast á rafmagn í fjórðungnum. Vindmælir í Hamarsfirði virðist hafa gefið upp öndina í átökunum í morgun.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu er gert ráð fyrir að helstu vegir verði lokaðir áfram og ítrekað er fyrir vegfarendum að leggja ekki í tvísýnu. Lokað er frá Djúpavogi til suðurs, um Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarð, Fjarðarheiði og Fagradal.

Rafmagn fór af nær öllum fjórðungnum upp úr klukkan tíu í morgun en var komið á víðast um klukkan eitt. Flökt hefur verið á rafmagninu enda raforkukerfi laskað eftir óveðrið í dag og í gær.

Álagi hefur verið stýrt á Reyðarfirði sem hefur þýtt að sum hverfi hafa verið með rafmagn og önnur ekki.

Í Breiðdal fór rafmagnið ekki af fyrr en um klukkan eitt, eða um það leiti sem það komst á annars staðar en komst á aftur um klukkan hálf þrjú. Breiðdælingar heyrðu þannig í útvarpstækjum sínum í morgun að rafmagnslaust væri á öllu Austurlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er stöðugleiki að komast á raforkukerfið eystra. Þó er ekki bitið úr nálinni með að það haldist, veðurspár gera ráð fyrir aukinni úrkomu sem eykur hættu á ísingu.

Rétt eftir klukkan 11 í morgun mældist vindhviða upp á 52,1 m/s á mæli í Hamarsfirði. Hviðan virðist hafa gert út af við mælinn sem síðan hefur sýnt logn.

Veðurstofan telur töluverða snjóflóðahættu á Austurlandi, í fjalllendi á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.