Vegurinn til Mjóafjarðar í sundur á tveimur stöðum
Vegurinn til Mjóafjarðar er kominn sundur á tveimur stöðum að sögn heimamanns. Allir hafa það gott í firðinum en nokkrar áhyggjur eru af ferðafólki sem enn er töluvert að þvælast á þessum slóðum.
Það rignir kannski ekki eldi og brennisteini í Mjóafirði en næstum því, að sögn Sigfúsar Vilhjálmssonar, bónda á Brekku. Hann segir heimafólk hafa það gott og vandræðalaust verið að mestu það sem af er degi en hann segir að haustrigningar sem þær sem nú ganga yfir Austurland sé nú hreint ekki nýlunda. Skoði menn heimildir aftur í tímann sé slíkt úrhelli ekki jafn óalgengt og margir menn halda.
„Þetta er heilmikil helvítis úrkoma þennan daginn. Fólk var eitthvað að kvarta yfir úrhelli í gær en mér fannst það nú bara vera þurrasuddi. Það er orðið ófært hér um veginn skammt innan við Hesteyrarár en þar hefur vatnið grafið sundur veginn. Allir hér eru öllu vanir í veðrinu en mestar áhyggjurnar eru af ferðafólki sem ekki þekkir til þessara aðstæðna.“
Sigfús gefur lítið fyrir að svo miklar rigningar séu eitthvað einsdæmi í miðjum septembermánuði. „Miklar haustrigningar í septembermánuði eru ekki óþekktar. Pabbi gamli átti afmæli 20. september og ég man ekki betur en það hafi verið einhver svona djöfullinn í gangi oftar en ekki á þeim tíma. Ekki bara rigningar heldur krapahríð og allur fjandinn þannig að þetta er ekki merkilegt svona til lengri tíma litið.
Svona nokkuð getur komið á öllum árstíma hvar sem er. Mér var sagt frá því að árið 1946 hafi grafið undan íbúðarhúsi hér hinu megin við fjörðinn vegna rigninga. Kerlingin á bænum fór niður í kjallara og leysti kýrnar frá til að bjarga þeim og þetta var um miðjan ágústmánuð.“