Veiðar hafa hverfandi áhrif á kálfadauða

Bændur á Austurlandi, sem fá arð af hreindýraveiðum, hafa trúlega fengið sektarkennd sumir hverir þegar dýra-, náttúru- og umhverfissamtökin Jarðarvinir gagnrýndu hreindýraveiðarnar harðlega og sögðu að um 600 kálfar hefðu farist síðastliðinn vetur úr hungri og vosbúð á kvalafullan hátt, sem megi rekja til veiða á kúm. Frumathuganir benda þó til að veiðar hafi lítil eða engin áhrif á afkomu kálfanna.


Jarðarvinir segja að rekja megi dauða kálfanna meðal annars til þess að veiðitímabilið hefjist of snemma (1. ágúst) og kálfar missi mæður sínar allt of ungir, þeir yngstu um átta vikna, og séu engan veginn í stakk búnir til að takast á við veturinn.

Samtökin kærðu Náttúrustofu Austurlands í vor fyrir vanrækslu, með því að hafa dregið að birta skýrslu, sem umhverfisráðherra fól NA að gera í kjölfar athugasemda Jarðarvina, í þeim tilgangi að hún myndi ekki hafa áhrif á veiðarnar síðastliðið haust.

Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hreindýra hjá NA, segir að ástæðan fyrir því að dráttur varð á birtingu skýrslunnar hafi einfaldlega verið annir. Auk heldur hafi engin dagsetning verið sett á skil skýrslunnar. Ákveðið hafi verið í samráði við ráðuneytið að niðurstöður hennar myndu ekki hafa áhrif á veiðitímabilið síðastliðið haust.

Þegar skýrslan er lesin er fátt þar að finna sem mælir með að veiðitímabilinu sé seinkað. Ljóst er að stofninn hefst vel við og til að mynda fjölgaði dýrunum úr 3000 að sumri í 7000 á árunum 2000 til 2018. Í nefndri skýrslu, sem lesa má HÉR, kemur meðal annars fram að skýringar á auknum kálfadauða seinnihluta vetrar 2016 séu þær að þá voru jarðbönn við sunnanverðan Álftafjörð sem vörðu í allt að fimm vikur og féllu þá fleiri dýr en venjulega, einkum kálfar og tarfar.

Skarphéðinn segir að ef jarðbönn verða í harðindaárum, sem hafi verið fátíð undanfarna áratugi, falli kálfarnir fyrst, vegna þess að þeir hafi ekki safnað fituforða, heldur hafi öll orka farið í vöxt. Næst falli fullorðnir tarfar, sem hafi brennt upp megninu af fituforðanum á fengitímanum. Þetta sé gangur náttúrunnar.

Í skýrslunni kemur fram að 2001-2009 hafi veiðimenn verið hvattir til að fella kálfana með mæðrum sínum, en vegna hnökra á þeirri framkvæmd hafi fyrirkomulaginu verið breytt árið 2010 og veiðum á kálfum hætt. Samanburður fyrir og eftir kálfafriðun 2010 gaf engar vísbendingar um áhrif móðurleysis á vetrarafkomu kálfa.

Í niðurlagi samantektar úr skýrslunni segir orðrétt:

„Spurningin um hvort seinka eigi upphafi kúaveiðitímans snýst einkum um siðfræði þar sem ekkert í gögnum Náttúrustofu Austurlands bendir til þess að núverandi fyrirkomulag veiða auki dánartíðni kálfa sem um munar. Að því gefnu að veiðiálag á kýr sem kálfur fylgir fyrstu vikurnar í ágúst aukist ekki hlutfallslega frá því sem verið hefur og tíðarfar breytist ekki á þann veg að langvinn jarðbönn verði algengari er ólíklegt að afföll kálfa að vetrum breytist þó veiðitími yrði styttur eða upphafi seinkað. Breytingar á lengd veiðitímabils munu hinsvegar fela í sér aukið álag á dýrin hvort heldur með því að tímabilið lengist eða álag aukist á þeim dögum sem nú er veitt á. Eins myndu minni veiðar leiða til enn frekari fjölgunar hreindýra sem kann að hafa víðtækar og alvarlegar neikvæðar afleiðingar.“

Ljósmynd: Náttúrustofa Austurlands/ Skarphéðinn G Þórisson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.