Veiðigjald er landsbyggðarskattur: Gullberg ónýtt á innan við fimm árum

001.jpg
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ og eigandi útgerðarfyrirtækisins Gullbergs á Seyðisfirði, spáir því að nýtt frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu geri út af við fyrirtæki hans á innan við fimm árum verði það samþykkt á Alþingi. Hann segir verið að soga peninga frá landsbyggðinni til Reykjavíkur með auknum gjöldum á útgerðina.

„Það verður ónýtt á innan við fimm árum“ segir Adolf í samtali við vikublaðið Austurgluggann. Veiðigjaldið segir hann bitna harðar á uppsjávarfyrirtækjum en bolfiskfyrirtækjum en það hafi slæm áhrif á allar austfirskar útgerðir.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi verulega slæm áhrif á t.d. Loðnuvinnsluna og Síldarvinnsluna þó að þau muni örugglega lifa þetta af sökum þess að þau eru lítið skuldsett.“ 

Adolf segir að með veiðigjaldi sé verið að soga peninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Því sé réttast að kalla það landsbyggðarskatt.

„Ef við gefum okkur það að 90% af sjávarútvegi sé á landsbyggðinni og þetta séu 30 milljarðar sem komi sem tekjur í ríkissjóðs í gegnum veiðigjald, þá eru þetta 3 milljarðar í Reykjavík og 27 milljarðar á landsbyggðinni og svo eiga menn að fá einhverja ölmusu í gegnum byggðapotta og kvótaleigu, hitt fer í ríkissjóð. Það er því verið að soga alla peninga til Reykjavíkur, þetta er því landsbyggðarskattur.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar