Vel menntað starfsfólk í sjávarútvegi aldrei verið mikilvægara
Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hóf síðasta vetur að nota nýtt námsumhverfi, LearnCove, til að halda utan um námskeiðahald og menntun starfsfólks. Rekstrarstjóri segir hraða tækniþróun kalla á nýja færni.„Fiskvinnslan er almennt orðin miklu tæknivæddari og sú þróun er nokkuð hröð. Það beinlínis þýðir að fólk þarf að kunna skil á mun fleiri hlutum en áður og má kannski segja að þetta sé svart og hvítt frá fyrri árum og áratugum.
Sjálfvirknin hefur stóraukist og með henni breytast störfin. Í tilvikum eru störf fiskvinnslufólks að hluta til hrein og bein eftirlitsstörf með að allt gangi fyrir sig eins og það á að gera. Svo þarf auðvitað að grípa inn í ef eitthvað gerist eða kerfið stoppar. Það er eitt og annað frábrugðið í nútíma vinnslum,” segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarvinnslu Eskju.
LearnCove hefur verið sérstaklega þróað fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að gera þeim auðveldara að halda utan um fræðslu, gæðaferla og úttektir. Fleiri hafa nýtt sér það, meðal annars Austurbrú. Hjá Eskju var hugbúnaður tekinn í notkun í desember í fyrra.
„Þetta kerfi er bráðsniðugt. Í gegnum það má til dæmis útbúa ýmis námskeið fyrir nýliða eða aðra starfsmenn. Einnig er hægt að leggja fyrir og taka próf í þeim námskeiðum og þannig getum við til dæmis séð hvort tiltekið námskeið er að virka eða hvort þátttakendur eru raunverulega að fylgjast með efninu og svara rétt eða hvernig námsframvindan er heilt yfir á lengri námskeiðum.
Þetta er mjög góð viðbót við það sem við höfðum áður, en yfirsýn er öll meiri og betri, en einfaldari engu að síður. Annað sem er stór kostur við Learncove er að innan þess er hægt að þýða spurningar eða verkefni yfir á fjölmörg tungumál vandræðalaust. Þannig getur fólk sem er af erlendu bergi brotið, sem er stór hluti af okkar starfsfólki, áttað sig enn betur á kennsluefninu á sínu eigin tungumáli ef svo ber undir,” segir Hlynur.
Í vor luku 15 starfsmenn Eskju grunnámi fyrir fiskvinnslufólk með námsefni frá Fisktækniskóla Íslands og fór mestur hluti námsins fram í gegnum tölvukerfið. Hlynur segir að þannig geti nemendur lært á sínum hraða og á sínum tíma, en í boði hefur verið að taka námið á vinnutíma.
Mynd: Eskja
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.