Verja þarf íbúabyggð á Seyðisfirði vegna skriðuhættu
Í nýju áhættumati vegna ofanflóða á Seyðisfirði stækka hættusvæði í suðurbænum undir Neðri-Botnum talsvert vegna þess að hætta af völdum stórra skriðna er metin meiri en áður. Það kallar á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina og aukna vöktun.
Sakvæmt áhættumatinu eru samtals 29 íbúðarhús undir Botnabrún og Botnahlíð á hættusvæði C, hæsta áhættuflokki. Seyðisfjarðarkaupstaður vinnur að undirbúningi varnaraðgerða í samvinnu við Ofanflóðasjóð og sérfræðinga.
Endurskoðað hættumat fyrir Seyðisfjörð og Vestdalseyri var kynnt á borgarafundi á Seyðisfirði þann 29. ágúst. Hættumatið sem fyrir var er frá árinu 2002 en endurskoðunin sem kynnt var á dögunum er fyrir suðurbæinn, byggðina undir Bjólfi og Vestdalseyri.
Tilefni endurskoðunar fyrra mats frá 2002 eru jarðfræðirannsóknir sem sýna að stórar, forsögulegar skriður hafi fallið yfir svæðið þar sem suðurhluti Seyðisfjarðarbæjar stendur nú og að Seyðisfjarðarbær óskaði eftir nánari greiningu á ofanflóðahættu undir Strandartindi. Nýja hættumatið undir Strandartindi er lítið breytt frá fyrra hættumati.
Með matinu stækkar áhættusvæði í suðurbænum en einnig segir að brýnt sé að bæta öryggi á atvinnusvæðinu undir Strandartindi með varnarvirkjum eða breytingu á landnýtingu. Á hættusvæðum sem afmörkuð eru við Vestdalseyri eru engar byggingar en matið þar er hugsað til viðmiðunar fyrir skipulagsgerð.
Skriðuhætta er vöktuð af ofanflóðavakt Veðurstofunnar sem fylgist með veðurspá og úrkomumælingum en stórar skriður falla að öllum líkindum í kjölfar stórrigninga sem koma skýrt fram í veðurmælingum. Skriður af þessari stærð eru mjög sjaldgæfar og hafa ekki fallið úr Neðri-Botnum frá því land byggðist.
Hættumatskort og skýrslur munu liggja frammi á skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar og á vef Veðurstofu Íslands til kynningar í fjórar vikur en athugasemdum er hægt að skila til 30. september.