Skip to main content

Verkfall boðað í Egilsstaðaskóla í byrjun janúar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. nóv 2024 15:33Uppfært 21. nóv 2024 15:35

Lítið þokast í samkomulagsátt í kjaradeilu Kennarasambands Íslands við sveitarfélög landsins og ríkið og nú hafa fjórir skólar í viðbót við þá sem þegar eru í verkfalli tilkynnt verkfallsaðgerðir. Einn þeirra er Egilsstaðaskóli.

Náist ekki að semja um kaup og kjör svo lærðum kennurum sé að skapi fyrir 6. janúar á nýju ári fara fjórir skólar til viðbótar í verkfall. Einn þessara fjögurra er Egilsstaðaskóli sem verður þá fyrsti skólinn á Austurlandi til að grípa til aðgerða. Hinir skólarnir eru Grundaskóli á Akranesi, Engjaskóli í Reykjavík og Lindaskóli í Kópavogi.

Samkvæmt tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands verða nýboðuð verkföll þessara fjögurra skóla tímabundin en munu þó standa frá 6. janúar til 31. janúar náist ekki samningar fyrir þann tíma. Allir félagar í Félagi grunnskólakennara annars vegar og Skólastjórnarfélagi Íslands hins vegar greiddu atkvæði um verkfallsboðunina og reyndust 98 - 100 prósent félagsmanna samþykkir verkfalli.

Alls sautján skólar hafa því nú annaðhvort hafið verkföll eða tilkynnt um þau á næstunni en allra fyrstu skólarnir til að hefja verkföll til að ýta á um bætt launakjör gerðu það fyrir þremur vikum síðan þann 29. október.