Skip to main content

Verkföll vofa yfir í tveimur skólum á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. jan 2025 10:42Uppfært 28. jan 2025 13:12

Verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar í tveimur austfirskum skólum frá og með 1. febrúar. Lítið virðist þokast í samningsátt þrátt fyrir viðræður.


Um er að ræða annars vegar ótímabundið verkfall í leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði og tímabundið verkfall til 26. febrúar í Egilsstaðaskóla.

Búið var að boða til beggja verkfalla þegar öllum verkfallsaðgerðum kennara var frestað í lok nóvember þegar tillaga ríkissáttasemjara og aðferðafræði við samningagerðina var samþykkt. Var lagt upp með tveggja mánaða vinnu. Þrátt fyrir viðræður hefur lítið þokast í samkomulagsátt.

Verkföllin taka gildi frá og með 1. febrúar, náist ekki nýtt samkomulag fyrir þann tíma. Það þýðir að skólahald í skólunum tveimur fellur niður frá og með næsta mánudegi.

Austfirsk kennarafélög eru meðal þeirra sem í haust sendu frá sér ályktanir til stuðnings þeim verkfallsaðgerðum sem þá voru í gangi og viðræðunefnd. Skorað var á austfirsk sveitarfélög að leggja sitt af mörkum til samninga.

Í ályktunum er meðal annars minnt á að kjarasamningar kennara hafi verið lausir mánuðum saman og kröfur þeirra um að laun þeirra verði jöfnuð á við aðrar stéttir með sambærilegt menntunarstig, ekki síst þar sem frá árinu 2016 hafi verið unnið að jöfnun lífeyrisréttinda milli opinberra starfsmanna og almenna markaðarins.