Nýjar bækistöðvar Austurljóss lítið eitt minni en höfuðstöðvar Landsbankans

Starfsemi hins austfirska fjarskiptafyrirtækis Austurljóss lamaðist mjög þegar geymsluhúsnæði fyrirtækisins á Egilsstöðum brann til kaldra kola síðastliðið vor. Það setti mikið strik í reikninginn á annatíma en nú horfir allt til betri vegar.

Það staðfestir eigandinn og framkvæmdastjórinn Stefán Sigurðsson en fyrirtækið reisir nú nýja bækistöð á sama stað sem verður tilbúin til notkunar innan tíðar. Þar með verður hægt að hefja eðlilega starfsemi á nýjan leik en eldsvoðinn í maí fyrir ári gerði það að verkum að mesti annatími fyrirtækisins yfir sumartímann fór fyrir lítið.

Austurljós mun á þessu ári ljúka við að tengja Seyðfirðinga ljósleiðara sem er öruggasta leiðin til að vera í netsambandi. Fyrirtækið mun einnig hefja lagningu leiðara í þéttbýli Djúpavogs en bæjarbúar þar hafa setið aðeins meira á hakanum hvað örugg fjarskipti varðar en flestir aðrir þéttbýliskjarnar Austurlands.

Framkvæmdastjórinn gantaðist með það á fésbókarvef Austurljóss nýverið að nýjar bækistöðvar yrðu aðeins lítið eitt minni en dýrar höfuðstöðvar Landsbankans við Hörpu í Reykjavík. Grunnflötur nýja hússins sem er byggt úr forsteyptum einingum frá MVA eru 125 fermetrar auk 80 fermetra millilofts. Það lítið eitt minna en stærð aðalbanka Landsbankans sem telur 16.500 fermetra.

Nýtt hús á nýju ári hjá Austurljósi. Húsið verður komin í notkun strax með vorinu gangi allt eftir. Mynd Austurljós

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.