„Við erum bókstaflega annars flokks fólk hér á Seyðisfirði“
Fyrsta barnið sem komið hefur í heiminn á Seyðisfirði um 32 ára skeið leit dagsins fyrsta ljós við verstu hugsanlegu aðstæður þegar fjörðurinn var meira og minna lokaður vegna veðurs, snjóa og viðvarana á mánudaginn var. Ef ljósmóðir á eftirlaunum hefði ekki verið til taks í nágrenninu er ekki gefið að allt hefði gengið að óskum eins og raunin varð.
Eitt það sem oft gleymist í umræðunni um nauðsyn jarðganga undir Fjarðarheiði milli Héraðs og Seyðisfjarðar er sú staðreynd að aðgengi að bráða- og eða almennri læknisþjónustu er oft lítið sem ekkert þau skipti sem heiðin sú er ófær vegna veðurs og snjóalaga. Slíkt gerist nokkuð reglulega að vetrarlagi ár hvert og á meðan svo er búa íbúar við mikið öryggisleysi sem aðrir íbúar landsins þurfa jafnan hvorki að hugsa um né sætta sig við.
Sú staðreynd fer mikið fyrir brjóst Lukku S. Gissurarsdóttur, ljósmóður á Seyðisfirði, sem þrátt fyrir að hafa farið á eftirlaun fyrir rúmu ári síðan hikaði ekki augnablik þegar brýn þörf var á hennar sérþekkingu í byrjun vikunnar. Þá ákvað nýr Seyðfirðingur að koma í heiminn vel á undan áætlun og tímasetningin miður góð því Fjarðarheiðin var lokuð og þar með líka lokað á alla hjálp og aðstoð faglærðra heilbrigðisstarfsmanna á Austurlandi.
Tvær þjóðir í einu landi
Lukku var heitt í hamsi vegna þessa þegar Austurfrétt náði tali af henni vegna málsins enda hreint ekki í fyrsta skipti sem hún þarf að aðstoða og hjálpa heimafólki þegar lokað er á allar þær bjargir sem flestir aðrir landsmenn telja með öllu eðlilegar öllum stundum hinum megin Fjarðarheiðarinnar. Eina fæðingaraðstaðan á Austurlandi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað sem við allra bestu aðstæður er í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá Seyðisfirði. En „bestu“ aðstæður eru sjaldan alltaf til staðar.
„Þetta gekk allt sem betur fer mjög vel um daginn og auðvitað gleðilegt að fá nýjan heimamann í hópinn en það sem situr í mér eftir þetta og hefur reyndar gert mig reiða áður fyrr líka eru þessar ömurlegu aðstæður sem við höfum búið við um langt skeið og er eiginlega ekkert annað en hrein og bein lítilsvirðing við okkur hér á Seyðisfirði. Það fer lítið fyrir því þegar rætt er um göng undir Fjarðarheiðina hve djúpt það ristir fólk hér að búa áratugum saman við það öryggisleysi að geta ekki stólað á að komast í og fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þegar og ef heiðin er ófær eða veður eru slæm. Getur fólk almennt ímyndað sér hvað slíkt hefur mikil áhrif á sálartetur fólks hér? Að geta hugsanlega ekki fengið lífsnauðsynlega aðstoð þegar á bjátar?“
Óheyrilega mikil skerðing á þjónustu
Lukka er eðli máls samkvæmt bundin þagnaðeið varðandi hluti sem gerst hafa í hennar áratugalanga starfi í heilbrigðisgeiranum austanlands en viðurkennir fúslega að ef hún mætti tjá sig um eitt og annað opinberlega væru hlutirnir hugsanlega betri en þeir hafa verið og eru enn þann dag í dag.
„Ég byrja að vinna hér við heilbrigðisþjónustu 1977 og búin að fylgjast með heilmiklum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu á þeim tíma þar sem samþjöppun á sér stað alls staðar. Auðvitað eru samgöngumálin nú betri en þau voru þegar ég var að alast upp hérna og byrja að vinna. Á þeim tíma var heiðin ekkert rudd heldur bara farið þegar færi gafst með tilliti til veðurs. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að staðan er betri hvað það varðar en skerðingin á heilbrigðisþjónustu hér á Seyðisfirði er ekkert minna en ofboðslega mikil að nánast öllu leyti og ég verð bara reið að hugsa um og tala um þá hluti á þessu stigi. Það er ekkert talað um eða hlustað á rök um öryggisþáttinn fyrir okkur hér. Það nákvæmlega ekkert hlustað á okkur hér og hefur ekki verið gert lengi. Við erum bókstaflega annars flokks fólk hér á Seyðisfirði.“
Vilja stjórnvöld byggð í landinu eður ei?
Skýrt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu heyrir undir mannréttindi nú á tímum og krafan um slíkt vex hratt með síhækkandi meðalaldri landsmanna en Lukka útskýrir að slíkt sé yfirleitt ekki í hugsunum fólks fyrr en á þarf að halda. Eitt sé að viðhalda lágmarks heilbrigðisþjónustu en stór hluti þess sé að hægt sé að komast í þá þjónustu þegar og ef eitthvað alvarlegt á sér stað. Hún bendir til dæmis á þá staðreynd að Fjarðaheiðin var opin og fær þegar rýma þurfti Seyðisfjörð allan vegna aurskriða rétt fyrir jólin 2020.
„Þarf eitthvað að hugsa hver staðan hefði getað orðið ef heiðin hefði verið ófær á þeim tíma? En það sama hvað við tölum um þessa stöðu að þá er alltaf gert lítið úr þessu hjá okkur. Áhrifamenn í þessu landi, hvort sem það er ríkisstjórnin sjálf eða alþingismenn, þurfa að gera upp við sig hvort þeir vilji hafa íbúabyggð víða í landinu og þá hvort þeir vilja hlúa að því fólki sem vill byggja þetta land.“
Mynd frá björgunarsveitum sem reyndu að koma vegfarendum til hjálpar á Fjarðarheiðinni þann 20. janúar þegar veðurofsi gerði heiðina það ófæra að meira að segja snjóruðningstæki festu sig. Hefði einhver einstaklingur á Seyðisfirði þurft brýna aðstoð á þeim tíma er óvíst hvernig það hefði endað. Mynd Landsbjörg.