Verkkunnátta sem talin var útdauð á Norðurlöndum fannst á Stöð

Í ljós hefur komið að verkkunnátta sem talið var að hefði horfið úr heimi norrænna manna var til staðar í landnámsskálanum á Stöð í Stöðvarfirði. Ríkulegir gripir sem þar hafa fundist benda til þess að þar hafi dvalist höfðingjar.

„Þessi flókna ásláttartækni hefur verið talin útdauð í heimi norrænna manna. Að hún finnist hér er nýmæli sem nær langt út fyrir Ísland og getur varpað nýju ljósi á verkmenningu á Norðurlöndum,“ segir Bjarni F. Einarsson, sem stýrir rannsókninni á Stöð.

Í skálunum á Stöð hafa fundist yfir 100 jaspís molar. Í áfangaskýrslu, þar sem gerð er grein fyrir rannsóknum síðasta sumars, kemur fram að molarnir séu flestir unnir af fólki til að fá fram verkfæri til að nota við dagleg störf eins og að slá eld, skera, skrapa og hefla. Greiningar frá 2018 sýna mjög þróaða kunnáttu í að slá steinana.

Hverjir fluttu verkkunnáttuna með sér?

Niðurstöðurnar eru sagðar varpa nýju ljósi á verkkunnáttu þetta þeirra sem til Stöðvarfjarðar komu. Rannsóknir benda til þess að í fyrstu hafi verið notaðir gripir úr tinnu en með tímanum hafi jaspisinn tekið yfir.

Þetta er talið sýna að gripir úr tinnu og jaspis hafi skipt meira máli en áður hafi verið talið í efnismenningu hins norræna menningarheims og að tækni, sem talin var hafa horfið þegar málmar komu fram, hafi verið til staðar í ríkara mæli en haldið var. Gripirnir sýna að þessi efni voru stærri hluti af efnismenningu Norðurlanda á yngri járnöld en talið hefur verið.

Þeir sem dvöldu á Stöð fluttu tæknina með sér en fundu hana ekki upp við komuna. Sennilegt er að hún hafi verið bundin við ákvæðin á svæði á Norðurlöndum, jafnvel ákveðna hópa eða þjóðarbrot. Í skýrslunni er varpað fram þeirri kenningu að Samar kunni að hafa varðveitt tæknina sem þýðir að einn eða fleiri Samar hafi ferðast hingað til lands.

Ríkmannlegir gripir

En það er ekki bara verktæknin sem þykir merkileg. Bjarni bendir á að þegar litið sé á það magn silfurs, blýs og gulls sem fundist hafi í húsunum tveimur á Stöð sé ljóst að skálarnir séu meðal þeirra ríkmannlegustu sem fundist hafi á Íslandi.

Eldri skálinn er meira en 40 metra langur og er þegar orðinn stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið hérlendis. Sá stærsti sem fundist hefur er í Bölmóðstungu á Síðu, 43 metra langur en hann er órannsakaður.

Alls hafa fundist yfir 40 perlur við uppgröftinn, þar af 17 í fyrra. Stöð stendur þegar undir fimmtungi allra perlna sem fundist hafa við fornbæjarrannsóknir á Íslandi. Um 80% perlnanna frá Stöð eru úr gleri.

Í ljós hafa komið um 20 silfurbrot, þar á meðal brot úr arabískri mynt. Silfrið bendir meðal annars til að stundið hafi verið verslun á Stöð. Þetta er meiri fjöldi perlna og silfurs en áður hefur fundist í híbýlum frá járnöld á Íslandi. Að auki fannst einn gullgripur en afar fágætt er að finna gull hérlendis.

Í skýrslunni er stærð skálanna og gripirnir sem fundist hafa bornir saman við aðra uppgreftri hérlendis á svokölluðum höfðingjaskálum. Óljóst er talið hver sá höfðingi kunni að hafa verið en bent á að í Landnámi sé sagt frá Þórhaddi hinum gamla sem sem numið hafi land í Stöðvarfirði.

Stærsti styrkurinn úr fornminjasjóði

Aldursgreiningar hafa leitt í ljós að eldri skálinn er líklega eldri en frá árinu 871, sem landnám er almennt kennt við. Yngri skálinn er talinn hafa verið í notkun vel fram á 10. öld, jafnfram fram á þá elleftu. Búsetan í skálunum gæti því spannað allt að 200 ár.

Uppgröfturinn á Stöð fékk nýverið stærsta styrkinn úr fornminjasjóði fyrir árið 2019, 3,5 milljónir króna. Byrjað verður að grafa þann 3. júní og grafið út júní mánuð. Áhersla er að klára að grafa upp allan yngri skálann áður en farið verður í frekari rannsóknir á þeim eldri.

Þá verður í sumar haldið áfram rannsóknum bandarísks hóps sem miðar að því að finna og greina DNA af svæðinu. Þegar hafa verið tekin sýni sem innihalda erfðaefni en eftir er að greina nánar hvers eðlis þau eru.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar