Vesterålen: Við erum að fá unga skapandi fólkið heim aftur

erik_bugge_make.jpg
Menningarverkefni í Vesterålen þar sem ungt fólk sem menntað hefur sig í skapandi greinum er hvatt til að snúa heim aftur hefur stuðlað að því að unga fólkið snýr aftur á heimaslóðir. Reynt hefur verið að herma eftir verkefninu að hluta á Austurlandi.

Menningarráð Austurlands og menningarráð Vesterålen í norðanverðum Noregi hafa verið í samstarfa í tíu ár. Svæðin búa að mörgu leyti við svipaðar aðstæður, eru langt frá höfuðborgum sinna landa og hafa horft á eftir miklu af ungu fólki sem menntað hefur sig í skapandi greinum og snýr ekki aftur.

Fyrir nokkrum árum snéru Norðmennirnir vörn í sókn með verkefninu „Tilbakeström.“ Með því er stutt við ungt fólk sem menntað hefur sig í skapandi greinum, svo sem menningu og fjölmiðlun, til að koma aftur heim.

Annars vegar er byggt upp þéttara net milli þeirra sem eiga ættir að rekja til svæðisins, hins vegar að fá þá heim til að standa fyrir listviðburðum, til dæmis með að greiða ferðakostnað.

„Á hverju ári standa þau fyrir 4-5 viðburðum sem við komum ekkert nálægt,“ sagði Erik Bugge, forsvarsmaður menningarráðs Vesterålen á ráðstefnunni Make it Happen í síðustu viku en hún var meðal annars haldin til að fagna tíu ára samstarfi svæðanna.

Um 100 einstaklingar eru skráðir í norska verkefnið og þar af 25 þeirra flutt aftur heim. Listamenn hafa farið milli Austurlands og Vesterålen og staðið fyrir sameiginlegum viðburðum. „Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa tengslin við Austurland,“ sagði Bugge.

Austfirðingar reynt að herma eftir norska verkefninu. Í ávarpi sínu á ráðstefnunni sagði Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, að vonir stæðu til að efla hönnunarverkefnið Make by Þorpið enn frekar. „Við vonumst til að geta flutt það besta sem er að gerast í heiminum hingað austur á firði.“

loa_verdlaun_make.jpg
Við setningu ráðstefnunnar fékk Ólöf Björk Bragadóttir, betur þekkt sem Lóa, viðurkenningu frá menningarráði Vesterålen fyrir sjálfboðaliðavinnu og framlag sitt til menningarsamstarfsins. Svein Spjelkavik fékk sambærilega viðurkenningu frá Austfirðingum.

Svein fékk viðurkenninguna fyrir að stýra sýningunni Jaðarinn er hin nýja miðja í Sigerfjord og á Eiðum en sex ungir listamenn frá svæðunum tveimur tóku þátt í henni. Hann hefur einnig tekið á móti austfirskum listamönnum.

Lóa skipulagði listasýningu með tólf listamönnum frá svæðunum sem sýnd var í Stokmarknes, Harstad og Egilsstöðum. Hún hefur tekið á móti gestum frá Vesterålen og einnig farið sjálf til Noregs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.