Óveður og ófærð: Ekki talið hjá Sjálfstæðisflokknum fyrr en á morgun
Talningu atkvæða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur verið frestað til morguns. Ekki hefur verið hægt að koma kjörgögnum frá Austurlandi norður til Akureyrar vegna veðurs og ófærðar. Færð spilltist víða á Austur- og Norðurlandi í gærkvöldi.
Þetta kemur fram á Sjálfstæðisfélagsins á Akureyri, Íslendingur.is. Talið verður á Akureyri og veðrur ekki byrjað að telja fyrr en öll greidd atkvæði í prófkjörinu verða komin þangað. Ekki er búist við að það verði fyrr en á morgun.
Fyrstu tölur áttu upphaflega að birtast nú í hádeginu og lokatölur að liggja fyrir seinni partinn.
Ófært hefur verið um Möðrudalsöræfi en þar er nú unnið að mokstri samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Óveður er á Eyjafjarðarsvæðinu.
Á Austurlandi er ófært til Vopnafjarðar en unnið að mokstri á Vopnafjarðarheiði. Á Fjarðarheiði er óveður og ófært. Hálka er á flestum vegum.
Á Borgarfirði var þorrablót í gærkvöldi. Gestir munu þó flestir hafa komist heim. Ekkert hefur verið flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur síðan í gærmorgun.
Spáð er austan 15-23 m/s á Austurlandi í dag og snjókomu eða slyddu. Vindurinn á að snúast í norðlægari áttir á morgun og draga úr styrk hans, einkum inn til landsins og eftir því sem á líður morgundaginn.