Óveður um allt Austurland: Farangur flugfarþega fauk í rokinu: Myndir
Leiðindaveður hefur verið um mest allt Austurland í dag og útlit er fyrir að það haldi áfram fram eftir morgundeginum. Jörð er víðast hvít og færð erfið á fjallvegum eða þeir ófærir. Starfsmenn Flugfélags Íslands áttu í mestu vandræðum með að lesta síðustu vél dagsins.
Snjóa fór strax upp úr hádegi í dag og var jörð víðast hvar orðin hvít undir kvöldmat. Ófært er á Fjarðarheiði og milli Djúpavogs og Hafnar. Stórhríð geisar á Vopnafjarðarheiði og Fagradal og óveður er á Öxi og Breiðdalsheiði.
Í Hamarsfirði hefur vindhraðinn farið upp í tæpa 60 metra á sekúndu í hviðum. Ekki er útlit fyrir að veðrið gangi niður fyrr en seinni partinn á morgun.
Hundruð barna sem tóku þátt í fimleikamóti á Egilsstöðum eru þar strandaglópar. Rúta, sem fór til Akureyrar með þátttakendur þaðan, snéri við. Síðasta flugið fór frá Egilsstöðum klukkan hálf þrjú en vél sem átti að fara úr Reykjavík kortéri síðar gerði það ekki.
Flugvallarstarfsmenn á Egilsstöðum áttu í nokkrum vandræðum með að lesta síðustu vélina eins og sjá má á meðfylgjandi mynd Freydísar Eddu Benediktsdóttur en farangur fauk af hleðslubíl. „Svefnpokar og dýnur, sem eru í miklum meirihluta farangurs eftir svona fimleikamót, virðast þola illa 22 m/sek,“ sagði flugvallarstarfsmaður sem Agl.is ræddi við í kvöld.
Talsvert hefur snjóað í dag og skyggni er víða lélegt eins og myndir Garðars Eðvaldssonar frá Eskifirði og Töru Aspar Tjörvadóttur frá Egilsstöðum bera með sér.