Viðbúnaður vegna lendingar farþegavélar frá Egilsstöðum
Viðbúnaður var á Reykjavíkurflugvelli í morgun þegar Fokker 50 vél Flugfélags Íslands á leið frá Egilsstöðum kom þar inn til lendingar. Viðvörunarbúnaður gaf til kynna að lendingarbúnaður vélarinnar væri ekki í lagi.
Í frétt frá Flugfélaginu segir að viðbúnaðaráætlun flugvallarins hafi farið í gang þrátt fyrri að talið væri að bilunin væri í viðvörunarbúnaðinum en ekki í lendingarbúnaðinum. Vélin lenti eðlilega í Reykjavík klukkan 10:05.
26 farþegar voru um borð auk 3ja áhafnar meðlima. Eftir að farþegar voru komnir inn í flugstöð fór flugstjóri vélarinnar yfir atvikið með farþegum og útskýrði enn frekar hvað hafði gerst og viðbrögðin við því.