„Við eigum verkefnið öll saman“

Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar eystra hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfissins, en það var Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, sem veitti viðurkenninguna í Listasafni Sigurjóns ólafssonar á mánudaginn.



Nemendurnir hlutu útnefninguna fyrir ljósmyndaverkefni sem allir nemendur skólans, í 3. – 10. bekk unnu sameiginlega í tveggja daga gönguferð um Loðmundarfjörð. Nemendum var skipt í hópa þvert á árganga og átti hver hópur að finna myndefni í náttúrunni sem tengdist níu hugtökum sem nemendur og kennarar ákváðu í sameiningu, svo sem gleði, frelsi, orka, kyrrð, auðlind og samspil manns og náttúru. Nemendur unnu myndirnar síðan í tölvu og útbjuggu myndasýningu sem kynnt var fyrir öðrum nemendum skólans.

Í mati valnefndar segir að verkefnið sé frumlegt og taki á umhverfismálum með óhefðbundnum hætti, þar sem markmiðið var öðru fremur að nemendur fengju að upplifa og njóta þeirrar vellíðunar sem fylgir því að vera úti í náttúrunni. Einnig að verkefnið einkenndist af samvinnu þvert á aldurshópa, en samvinna ólíkra aðila er mikilvægur hluti af sjálfbærnimenntun.

Nemendurnir lögðu mikið á sig við úrvinnslu verkefnisins þar sem þeir gengu um 17 kílómetra leið frá Húsavíkurheiði inn Loðmundafjörð og tókust þannig á við umhverfið og náttúruna um leið og þeir öðluðust dýpri skilning á þeim hugtökum sem verkefnið spannaði.

 

Umhverfismennt fag sem allir í skólanum vinna saman

Svandís Egilsdóttir, skólastjóri á Borgarfirði segir útnefninguna einstaklega ánægjulega.

„Við vinnum mikið með umhverfismennt og ákváðum í vetur að gera hana að fagi við skólann, sem hluta af lífsleikni og samfélagsfræði. Við höfum tekið þátt nokkrum sinnum áður og það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu núna, sérstaklega af því að þetta verkefni var unnið þvert á aldur og var því samvinna allra nemenda og kennara skólans, við eigum verkefnið öll saman.“

Aðeins eru tíu nemendur við skólann í vetur og Svandís segir samvinnu nemenda enn mikilvægari fyrir vikið.

„Við erum að reyna að vinna á móti þessari staðalímynd að þurfa að eiga vini á sama aldri, við höfum bara ekkert efni á því hér og þurfum að vera sátt með að vinna og vera öll saman – en umhverfismenntin er dæmi um fag þar sem allir eru saman.“

Svandís segir áherslu á umhverfismenntina skila sér og nemendur séu bæði áhuga- og samviskusöm.

„Grænfánavinnan er einn af okkar styrkleikum, sem og endurvinnsla og allskonar útinám. Við erum með umhverfisráð þar sem nemendur og kennarar vinna saman og koma með tillögur að verkefnum fyrir skólastarfið.“

Svandís segir það hafa komið nemendum nokkuð á óvart að hafa hlotið útnefninguna.

„Ég held að þau átti sig ekki á því að það sem þeim þykir venjulegt er í rauninni til mikillar fyrirmyndar og eftirbreytni. Við fengum útipott í viðurkenningarskyni sem við opnuðum á fundi í gær þar sem fulltrúi nemenda sem tók á móti útnefningunni sagði hinum frá henni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.