„Við erum unga fólkið sem allir eru að tala um“

Undirbúningsfundur vegna Byggðarástefnu ungra Austfirðinga verður haldinn á Borgarfirði eystra um næstu helgi. Ásta Hlín Magnúsdóttir, ein skipuleggjenda fundarins, segir mikilvægt að ungt fólk hittist til að ræða byggðamál.


Áhugafólk um byggðaþróun á Austurlandi hefur ákveðið að halda stóra byggðaráðstefnu fyrir unga Austfirðinga næsta vor.

„Hugmyndin fæddist á Byggðaráðstefnunni 2016 sem haldin var á Breiðdalsvík í byrjun september. Yfirskrift Byggðaráðstefnunnar á Breiðdalsvík var Kemur unga fólkið? En á raðstefnunni var ungt fólk í áberandi minnihluta. Þarna ræddi fólk yfir fertugu hvað það væri sem ungt fólk vildi, eins og oft vill verða.

Við teljum mikilvægt að fá unga Austfirðinga með ólíkan bakgrunn og ólík sjónarmið til að setjast niður og ræða hvað það er sem þau sjálf vilja í staðin fyrir að einhverjir aðrir eyði mörgum ráðstefnum í að átta sig á vilja okkar,“ segir Ásta Hlín.

Frjótt, spennandi og vaxandi Austurland


Áætlað er að ráðstefnan sjálf fari fram á vormánuðum 2017 en fundurinn á Borgarfirði er ætlaður til að móta ráðstefnuna svo að hún taki á þeim málefnum sem ungu fólki eru hugleikin. Um 30 einstaklingum undir fertugu allstaðar að úr fjórðungnum hefur verið boðið að taka þátt í fundinum.

„Við erum unga fólkið sem allir eru að tala um, framtíðin er í okkar höndum. Við viljum að framtíðin sé frjótt, spennandi og vaxandi Austurland og ætlum leggja okkar af mörkum til að svo megi verða,“ segir Ásta Hlín.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.