„Við köllum eftir mjólkurfræðinemum“

„Stéttin er að eldast og það eru ekki nema þrír til fjórir í náminu á ári þannig að endurnýjunin er ekki næg,“ segir mjólkurfræðingurinn Þorsteinn Ingi Steinþórsson, sem stóð vaktina fyrir útibú Mjólkursamsölunnar á Egilsstöðum á náms- og atvinnulífssýningunni Að heiman og heim.


Hjá útibúi Mjólkursamsölunnar á Egilsstöðum eru tólf starfsmenn og er þar árlega unnið úr 7,2 milljónum lítra af mjólk. Helstu framleiðsluvörur eru kryddsmjör og Mozzarella- og Ricotta-ostar.

„Okkar aðalframleiðsla er Mozzarella-ostur en við skilum af okkur um 1.300 tonnum árlega, eða þremur og hálfu tonni á dag. Það er mjög mikið magn ef maður hugsar til þess að kannski eru aðeins um 150 grömm af ostinum á hverri pizzu,“ segir Þorsteinn Ingi.

Mjólkursamsalan sá sér leik á borði þegar náms- og atvinnulífssýningin var auglýst. „Við erum aðallega hér vegna þess að okkur sárvantar mjólkurfræðinema og þar sem sýningin átti að mestu að snúast um nám og námsmöguleika fyrir ungt fólk sáum við þetta sem kjörinn vettvang,“ segir Þorsteinn Ingi, en um þriggja ára iðnnám er að ræða sem kennt er í Danmörku.

„Mjólkurfræðin er mjög góður og skemmtilegur valkostur“
Sjálfur hefur Þorsteinn Ingi verið nokkuð lengi í greininni; „Það er nú eins og að spyrja konu til um aldur að svara því, en ég er búinn að vera í þessu í rúm 30 ár.“

Hann segir miklar breytingar hafa orðið á faginu á þeim tíma. „Það hefur orðið mikil tæknibylting í mjólkurfræðinni eins og öðrum greinum og mannshöndin kemur orðið sífellt minna við sögu. Mjólkurfræðin er mjög góður og skemmtilegur valkostur fyrir ungt fólk og alls ekki bundið við að búa til mjólkurvörur. Fjölmargir mjólkurfræðingar starfa innan lyfjaiðnaðarins, heilbrigðisgeirans, í bruggverksmiðjum og víðar. Í dag erum við um 50 innan stéttarinnar og köllum eftir nemum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar