„Við stefnum hátt“

„Það er mikill heiður og hvatning að fá slík verðlaun,“ segir Hákon Hansson formaður stjórnar Breiðdalsseturs, en hann veitti menningarverðlaunum SSA viðtöku á haustþingi samtakanna sem haldið var á Hallormsstað síðastliðna helgi.


Menningarverðlaun SSA hafa verið veitt einstaklingi eða stofnun á Austurlandi frá árinu 1999, en þau eru hugsuð sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Stjórn og varastjórn SSA greiðir atkvæði um tilnefningarnar en það var Breiðdalssetur sem hlaut menningarverðlaun SSA árið 2018.

Breiðdalssetur byggir á þremur stoðum
Breiðalssetur var stofnað árið 2010, en það er staðsett í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík. Setrið byggir á þremur grunnstoðum; jarðfræði, málvísindum og sögu en þó er aðaláhersla lögð á jarðfræði enda byggir það á arfleifð breska jarðfræðingsins George Walker, eins frægasta eldfjallafræðings heims á 20. öldinni. Walker rannsakaði austfirska jarðlagastaflann í 10 sumur á árunum 1955-1965 með höfuðáherslu á Breiðdalseldstöð. Í Breiðdalssetri eru reglulega haldnar sýningar og málþing, auk þess sem ýmsir menningarviðburðir hafa dregið að sér fjölda gesta. Safnið hefur frá upphafi helgað minningu dr. Stefáns Einarssonar málvísindamanns.

„Vona að við séum verðlaunanna verðug“
Hákon segir að það sé mjög ánægjulegt að Breiðdalssetur hafi hlotið verðlaunin.

„Ég lít þannig á að verið sé að verðlauna það sem hefur verið gert í Breiðdalssetri hingað til og ég vona að við séum verðlaunna verður. Breiðdalssetur er aðeins átta ára gömul stofnun og því enn á barnsaldri. En við stefnum hátt og á prjónunum er enn frekari uppbygging,“ segir Hákon sem veitti viðurkenningarskjali og ávísun upp á 250 þúsund viðtöku á þinginu.

Hvatning til eflingar menningar og listastarfs
Sigrún Blöndal, fráfarandi formaður SSA, segir tilgang verðlaunanna vera hvatningu til eflingar menningar- og listastarfs í landshlutanum.

„Það er mikils virði fyrir hvaða samfélag sem er, hvort sem er lítið eða stórt, að þar þrífist menningar- og fræðslustarfsemi. Breiðdalssetur er gott dæmi um slíkt framtak þar sem byggt er utan um það sem fyrir er. Fyrir dugnað og áhuga heimamanna og bakhjarla hefur starfsemin vaxið og dafnað með árunum,“ segir Sigrún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar