„Við viljum að vörumerkið Tákn verði gæðastimpill“

„Við erum nýtt fyrirtæki og þróumst hratt og því er engin leið að segja hvað verður næstu mánuði,“ segir Auðbergur Gíslason, forsprakki hönnunarstofunnar Tákn, sem að mestu er skipuð austfirskum einstaklingum.


Auðbergur, sem sjálfur lærði framleiðslutækni með áherslu á vöruþróun við Copenhagen School of Design and Technology segir hugmyndina að stofunni hafa kviknað hjá sér snemma á síðasta ári.

„Tákn er í raun samstarfsvettvangur fyrir okkur sjö sem að þessu stöndum. Við erum öll með mismunandi bakgrunn, svo sem í vöruhönnun, innanhússhönnun, margmiðlunarhönnun, grafískri vinnslu, tölvunarfræði og fjölmiðlafræði.

Við tökum að okkur fjölbreytt verkefni; vefhönnun, vöruhönnun, grafík, umbrot, vörumerkjaþróun, margmiðlun og við höfum einnig veitt fyrirtækjum töluverða ráðgjöf. Það er svo margt í þessum efnum sem helst í hendur hjá fyrirtækjum og það er mikilvægt að slá strax í upphafi réttan tón, þannig verður eftirleikurinn mun auðveldari.

Það krefst vandvirkni að byggja upp góð vörumerki og það þarf að fara vel með þau. Við viljum að vörumerkið Tákn verði gæðastimpill og það gerist ekki öðruvísi en með vandvirkni.“

Engin yfirbygging
Auðbergur hefur sjálfur starfað við hönnun hjá Alcoa Fjarðaáli, fyrst á sumrin og meðfram skóla en er í fullri vinnu þar í dag.

„Tákn hefur verið hliðarverkefni hjá okkur öllum og er að sækja í sig veðrið og verður vonandi eitthvað sem við getum haft að aðalatvinnu í framtíðinni. Þetta er mjög góður hópur sem er dreifður um Evrópu og við nýtum okkur tæknina til að vinna saman. Við höfum í augnablikinu enga yfirbyggingu sem gerir þetta allt miklu auðveldara og þægilegra í vöfum, þó skrifstofan komi trúlega fyrir rest.“

„Útlitshönnun fyrir ráðstefnu á vegum NATO og utanríkisráðuneytisins“
Auðbergur segir verkefnafjöldann vera merkilega mikinn miðað við sáralitla markaðssetningu. „Við erum að setja einhverja hundraðkalla á mánuði í Google-auglýsingar. Samt erum við að fá mesta aðsókn í gegnum síðuna okkar, takn.is, og í gegnum tölvupóst, frá aðilum sem hafa bara rambað á okkur. Þetta eru allskonar fyrirtæki, bæði hér fyrir austan og að sunnan, lítil og stór, meira að segja ríkisstofnanir. Við vorum til að mynda nýverið beðin um tilboð í útlitshönnun fyrir ráðstefnu á vegum NATO og utanríkisráðuneytisins. Það verkefni er mjög áhugavert og spennandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.