„Við vorum með kollana fulla af nýstárlegum hugmyndum“

„Ég hafði ekki grænan grun hvernig svona hlutir færu fram þar til núna,“ segir Rebekka Rut Svansdóttir, nemi á nýsköpunar- og tæknibraut við VA, sem tók ásamt samnemendum sínum þátt í Vörumessu Ungra frumkvöðla fyrr í þessum mánuði.


Nemendur á nýsköpunar- og tæknibraut Verkmenntaskóla Austurlands tóku í fyrsta skipti þátt í Vörumessunni með fyrirtækið sitt Spilaborg sem framleiddi borðspilið Áfanga.

Vörumessan er haldin er haldin af JA Iceland (Ungir frumkvöðlar á Íslandi) og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en markmiðið er að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamennt í skólum.

Langar að vinna áfram með hugmyndina
Rebekka Rut Svansdóttir er nemi á nýsköpunar- og tæknibraut við VA en hún stofnaði fyrirtækið Spilaborg ásamt samnemendum sínum, sem framleiddi borðspilið Áfanga sem sýnt var á vörumessunni.

„Í byrjun áfangans, sem kallaður er frumkvöðlafræði, þurftum við að finna vöru til að framleiða. Við vorum með kollana fulla af nýstárlegum hugmyndum en eftir margar kennslustundir var ákveðið að stofna fyrirtækið Spilaborg sem framleiðir vöruna Áfanga sem er hlutverkaspil byggt á íslenskum þjóðsögum.

Næsta skref var að skipta nemendum niður í hlutverk forstjóra, markaðsstjóra, fjármálastjóra og sölustjóra. Við héldum litlar kosningar innan hópsins þar sem hver og einn bauð sig fram í ákveðið hlutverk og útskýrði á fáeinum mínútum af hverju hann væri fær um að gegna viðkomandi starfi. Ég bauð mig fram sem fjármálastjóra hópsins og var kosin sem slíkur. Ég hef því verið í samskiptum við skrifstofu Ungra frumkvöðla vegna bankareiknings, haldið utan um fjárhagsleg gögn og fjárreiður fyrirtækisins, sem og að greiða reikninga og halda utan um bókhald hlutabréfa. Við seldum fullt af hlutabréfum sem við notuðum í fyrirtækið og restin af ágóðanum rann til MND-félagsins,“ segir Rebekka Rut.

Rebekka Rut segir hópinn hafa áhuga á að vinna frekar með hugmyndina. „Okkur langar að vinna meira að spilinu og bæta við það fleiri skemmtilegum smáatriðum.“

„Gríðarlega mikil reynsla fólgin í því að taka þátt í svona verkefni“
Nemendur unnu frumgerð borðspilsins í Fab Lab Austurland, þar sem þau laserskáru, vínylskáru og þrívíddarprentuðu eigin hönnun. Einnig nýttu þeir sér tæki og tól í smiðjunni til að útbúa allar merkingar og hönnuðu vörumerki fyrirtækisins.

„Það er gríðarlega mikil reynsla fólgin í því að taka þátt í svona verkefni. Það eru ekki margir unglingar sem geta sagt að þeir hafi stofnað og rekið sitt eigið fyrirtæki, selt hlutabréf í, hannað og framleitt sína eigin vöru.

Þetta verkefni gaf mér, og eflaust hinum krökkunum, góða innsýn inn í atvinnulíf fyrirtækjarekenda og frumkvöðla. Ég hafði ekki grænan grun hvernig svona hlutir færu fram þar til núna. Ég læri mest á því að framkvæma hluti svo þetta verkefni kenndi mér miklu meira um fyrirtækjarekstur og efnahag en nokkur bók eða Powerpoint-glæra mun gera,“ segir Rebekka Rut.

Námsbrautin er svar við kalli samtímans
„Þátttaka okkar var í tengslum við nám á nýsköpunar- og tæknibraut sem er ný námsbraut til stúdentsprófs við skólann og sækja nemendur þó nokkra áfanga þar sem áhersla er lögð á nýsköpun frá ýmsum hliðum. Við leggjum mikla áherslu á að þjálfa nemendur í að fara út úr kassanum, mála aðeins „út fyrir strigann“ og rýna nemendur vandlega í það hvað felst í frumkvöðlahætti. Í framhaldinu sækja þeir svo áfanga sem snúa enn frekar að vöruþróun – stofnun og reksturs fyrirtækis, gerð viðskiptaáætlana og markaðssetningar. Það er einmitt í þeim áfanga sem þátttaka í vörumessunni er fólgin,“ segir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, kennari við skólann.

Lilja segir að þrátt fyrir að brautin sé mjög áhugaverð og í takt við tímann taki alltaf tíma að koma nýjum námsleiðum á framfæri. „Við erum gjarnan svo íhaldssöm þegar kemur að námsvali. Við teljum óhætt að segja að brautin sé svar við kalli samtímans, hún er eftirsóknarverður kostur í skóla 21. aldar, í umhverfi fjórðu iðnbyltingar. Í dag skiptir máli að leggja áherslu á lausnamiðun, tæknilæsi, samvinnu og sköpun og þar er áherslan okkar á nýsköpunar- og tæknibraut,“ segir Lilja Guðný.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.