Víða grátt í fjöll á Austfjörðum
Austfirðingum var mörgum brugðið þegar þeir litu til fjalla í morgun. Víða var grátt niður fjallahlíðarnar, sem fágætt er á síðasta degi júnímánaðar.Ofan byggðarinnar í Neskaupstað hafði snjórinn fikrað sig niður í átt að byggðinni og víða mátti sjá hvíta litinn þegar horft var um í fjallahringnum.
Þetta var hvorki einsdæmi á Austfjörðum né heldur á landinu. Á Fagradal var lá snjólínan í um 350 metra hæð.
Í Neskaupstað var mesta úrkoma á landinu í nótt, tæpir 7 mm auk þess sem hitastig í þorpinu fór niður undir frostmark.
Snjóinn hefur að mestu tekið út eftir því sem liðið hefur á daginn, en þó ekki að fullu. Áfram eru líkur á næturfrosti næstu daga og jafnvel einhverri slyddu, þá sérstaklega til fjalla.
Sveiflurnar hafa verið miklar í veðrinu síðustu daga því á fimmtudag var hitinn víða yfir 20 stigum austanlands. Hitamismunurinn er því um 20 stig á aðeins þremur dögum.