„Víða í dreifðum byggðum þá er sálgæsla presta eina úrræðið“
Allir oddvitar þeirra flokka sem fram bjóða fulltrúa til þingkosninga á morgun í Norðausturkjördæmi eru sammála um að bæta þurfi mjög í geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
Hvað er brýnast að gera á Austurlandi þegar kemur að geðheilbrigðismálum var sú spurning sem flest atkvæði hlaut í aðdraganda framboðsfundar oddvitanna sem Austurfrétt/Austurglugginn stóð fyrir í síðustu viku.
Málefnið vegur sérstaklega þungt vegna margra stórra áfalla víða í fjórðungnum allra síðustu árin en nýverið kom til dæmis fram að biðlistar eftir sálfræðingsaðstoð austanlands er farin að telja í árum nema í algjörum bráðatilfellum. Jafnvel bráðatilfelli geta þurft að bíða í daga og vikur eftir atvikum.
Allir eiga rétt á góðri þjónustu
Hver og einn einasti frambjóðendanna vildi bæta um betur fyrir hönd Austurlands:
„Þetta er í rauninni sá málaflokkur sem algjör samstaða er um,“ lét sjálfstæðismaðurinn Jens Garðar Helgason hafa eftir sér. „ Geðheilbrigðismálin er mál sem við öll þurfum að vinna að. Við þurfum að stórbæta geðheilbrigðismálin og aðgang fólks að geðlæknum. Við þurfum líka að reyna að vinna að því saman að koma hér upp meðferðarúrræðum fyrir þá sem eru í fíknivanda. Þetta er svo stór málaflokkur, og þvert á alla flokka, að við hér erum sammála um að þetta er ópólitískt mál.
Ingibjörg Ísaksen, Framsóknarflokki, sagði málaflokkinn mikilvægan: „Það er margt hægt að gera, mikið búið að gera og búið að byggja góðan grunn í tengslum við geðhjálparmál á Íslandi. Það er búið að mynda geðheilbrigðisteymi víða um land og ég tel afar mikilvægt að stækka þau teymi með fleiri einstaklingum, sálfræðingum og geðlæknum og útvíkka. Þetta er líka þvert á stofnanir og við heyrum það líka að það er mismunandi hvar þjónustunni liggur. Það þarf að skilgreina þjónustuna frekar þannig að það séu ekki grá merki og stofnanir séu að vísa einstaklingum á milli sín. Brýnt líka að hlutverkin séu vel skilgreind og það sé mælanlegur árangur.“
Logi Einarsson, Samfylkingu, taldi best að birgja brunninn áður en í óefni væri komið: „Við viljum tryggja öllum landsmönnum aðgang að föstum heimilislækni og heimilisteymi til þess að það sé fastur snertiflötur við heilbrigðisþjónustuna alveg frá þí að fólk fæðist og til enda. Við þurfum að tryggja að ungt fólk og unglingar hafi aðgang að sérfræðingum í skólum og við studdum tillögur Viðreisnar á sínum tíma um gjaldfrjálsa sálfræðisþjónustu sem allt Alþingi stuttu en ekkert hefur orðið af.“
Theódór Ingi Ólafsson frá Pírötum hefur persónulega reynslu af hlutum í geðheilbrigðiskerfinu: „Ég er sammála flestu hér. Ég hef sjálfur unnið í geðheilbrigðiskerfinu í rúmlega tíu ár. Það þarf alltaf fyrst og fremst að auka aðgengi fólks að geðlæknum og sálfræðiþjónustu hvort sem er á Austurlandi eða landsbyggðinni allri. En við þurfum líka byggt á eigin reynslu að grípa fyrr inn í. Við höfum allt of mikið verið að spara og búa til miklu stærra vandamál.“
Ingvar Þóroddsson úr Viðreisn vildi meina að þessi mál, auk efnahagsmála, væru meginstef stefnu Viðreisnar á komandi kjörtímabili. „Eins og Logi nefndi þá var það einmitt Viðreisn sem lagði fram tillögu sem fór gegnum þingið um að sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd og það endurspeglar þá viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu að andleg veikindi, geðræn vandamál, eigi að takast á við eins og hvers konar heilbrigðisvanda. Þetta verður alltaf eitt af okkar mikilvægustu málum í Viðreisn og ásamt efnahagsmálum það sem við erum að leggja mesta áherslu á. Úti á landi þar sem er mönnunarvandi þarf að tækla þetta með einhverjum hvötum. Og eins og fram hefur komið þá er mjög dýrt að gera ekki neitt ef við alltaf hugsum þetta í krónum og aurum.“
Samþjöppunarstefna er þó stórt vandamál í þessu samhengi og öðru samkvæmt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni: „Það er samstaða um þessi mál meðal frambjóðenda í kjördæminu og meðal sitjandi þingmanna. Ég myndi þó vilja bæta einu við til að það náist raunverulegur árangur í þessu og það er að hverfa frá samþjöppun í heilbrigðismálum á Íslandi. Taka meðvitaða ákvörðun og koma því til skila í stjórnkerfinu að það þarf að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Tryggja jafnan rétt til þjónustu og þar munum við þurfa hvata til að fá fólk til starfa utan höfuðborgarsvæðisins.“
Fulltrúi Lýðræðisflokksins, Gunnar Viðar Þórarinsson, vill niðurgreiða alla sálfræðiþjónustu: „Við þurfum að ráða gæðalækna á Íslandi, standa vörð um líðan fólks og auka lýðheilsu og forvarnir. Við þurfum að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, ráða geðlækna á Austurlandi. Þurfum að taka miklu betur á fíkniefnavandamálinu og maður hefur heyrt að flokkarnir hafa sagt að við séum búin að tapa því stríði. Ég er á annarri skoðun, við erum ekki búin að því. Svo þarf líka að afglæpavæða neysluskammta því mikið af heilbrigðisvandanum tengist fíkniefnavandanum.“
Víða á landsbyggðinni er eina aðgengi íbúa að geðhjálp gegnum sálgæslu presta á hverjum stað sagði Sindri Geir Óskarsson úr Vinstri grænum af þessu tilefni. „Sem prestur veit ég það að víða í dreifðum byggðum þá er sálgæsla presta eina úrræðið sem er í boði og það er algjörlega galin staða. Ef við horfum aðeins á rótina; af hverju er svona margt ungt fólk að takast á við heilbrigðisvandann, hvernig er lífsgæðakapphlaupið sem markaðshyggjan setur okkur að fara með þetta unga fólk okkar? Við sem erum til vinstri leyfum okkur að skapa samfélag félagshyggju þar sem við tökum utan um allt fólk. Förum inn í skólana með snemmtæka íhlutun, hjálpum krökkum að efla seiglu, efla sína hugarró af því að þar erum við að byggja grunn fyrir börnin til að koma heilbrigð og lífsglöð upp í ungling- og fullorðinsárin.
Öll heilbrigðisþjónusta, að meðtalinni geðhjálparþjónustu, skal vera gjaldfrjáls að sögn Þorsteins Bergssonar fulltrúa Sósíalistaflokksins: „Við í Sósíalistaflokknum tölum fyrir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Það á við um sálfræði- og geðlæknaþjónustu þá líka. Við teljum að það gæti verið góð hugmynd að setja upp fíknimeðferðarstofnun í fjórðungnum. Að öðru leyti viljum við nú ræða alla bætingu á heilbrigðisþjónustu við fagfólk í fjórðungnum. Ég vil nú segja að mér þykir ekki gott þegar menn tala um betri þjónustu í þessum efnum í öðru orðinu en aðhald í ríkisfjármálum í hinu. Ég vil beina því til Jens Garðars og fleirum að passa sig á því.“
Sigurjón Þórðarson oddviti Flokks fólksins í kjördæminu vildi meina ólíkt öðrum að geðheilbrigðismál væru ekkert annað en pólitísk: „Ég er ekki sammála því að þetta sé ekki pólitískt mál vegna þess að þessi staða er uppi og hún afleiðing ákvarðana sem í pólitík hefur verið rekin. Þessi málaflokkur er á hakanum og ég tel að við í Flokki fólksins eigum drjúgan þátt í að þau hafa verið sett á oddinn og þar einnig umræða um fíknivandann.“