Víða skemmdir á vegum eftir rigningar helgarinnar

Skemmdir urðu á vegum í flestum sveitarfélögum á Austurlandi í miklu hlákuveðri síðasta föstudag. Vegagerðin vinnur að viðgerðum eftir því sem kostur er.

Á vef Vegagerðarinnar má finna yfirlit yfir þær skemmdir sem urðu á vegum í óveðrinu um helgina.

Á Seyðisfjarðarvegi rann úr úr vegköntum á nokkrum stöðum í Lönguhlið og Neðri Staf.

Í Fljótsdal og Fljótsdalshéraði urðu minniháttar skemmdir á nokkrum heimreiðum. Á Múlavegi í Skriðdal grófst vegur í sundur utan við Borg.

Varnargarðar skemmdust við Jóku í Skriðdal. Á Skriðdals- og Breiðdalsvegi grófst vegur í sundur innan við Skriðuvatn og á Breiðdalsheiði rann yfir veg þannig að slitlag skolaðist úr vegi á kafla.

Í Breiðdal og Norðurdal urðu smá skemmdir í vegköntum á þó nokkrum stöðum.

Á Norðfirði fylltust ræsi þannig og rann yfir veg á nokkrum stöðum þannig að smá skemmdir urðu á vegi og ræsaendum. Grænanesvegur fór í sundur á tveimur stöðum.

Hringveginum var lokað milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Á tíu stöðum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði rann yfir veginn þannig að úrrennsli varð úr vegfyllingum og vegköntum auk minni háttar skemmda á slitlagi auk skemmda á ræsaendum. Þá braut Dalsá úr vegfyllingum meðfram veginum á stuttum kafla.

Vegur að Hafranes í Reyðarfirði grófst í sundur. Eins rann úr Helgustaðavegi á nokkrum stöðum.

Lækir fóru upp úr farvegum á nokkrum stöðum í Berufjarðarbotni með tilheyrandi skemmdum. Einnig rann úr veggköntum og við ræsi.

Vegur að Hofi í Álftarfirði grófst sundur ásamt vegi að Hamarseli í Hamarsfirði á tveimur stöðum.

Þrátt fyrir veðurhaminn var eina verkefnið sem skráð var í aðgerðagrunn Landsbjargar þegar björgunarsveitamenn lokuðu Hringveginum.

Mynd: Vegagerðin/Davíð Þór Sigfússon

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.