Viðbúið að lokað verði til Seyðisfjarðar fram á mánudag
Aðstæður á Fjarðarheiði voru taldar þannig í dag að ekki væri hægt að opna veginn þar yfir og hæpið er að það verði hægt að gera á morgun. Reynt var að opna Möðrudalsöræfi í morgun. Það tókst ekki og ekki verið reynt aftur fyrr en í fyrsta lagi á mánudag.Óveður gerði á Möðrudalsöræfum í gærkvöldi og lentu þar um 20 bílar í vanda. Björgunarsveitir voru fram eftir nóttu við aðstoð þar.
Reynt var að opna yfir Fjöllin og Vopnafjarðarheiði í morgun. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar var þar mikil snjókoma og skafrenningur þannig að jafn harðan fylltist í þar sem reynt var að ryðja. Þá var hætt við og um leið gefið út að ekki yrði reynt að ryðja á morgun.
Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að aðstæður á Fjarðarheiði hefðu verið skoðaðar í morgun en ekki talið hægt að opna. Þar sé einnig mikill snjór.
Fagridalur hefur haldist opinn en þæfingur verið þar í nær allan dag og slæmt skyggni. Sömu sögu er að segja af Vatnsskarði.
Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austurland að Glettingi frá klukkan sex í fyrramálið og fyrir Austfirði frá klukkan tvö eftir hádegi. Báðar gilda til miðnættis. Búist er við norðaustan, 13-18 m/s og talsverðri snjókomu. Útlitið fyrir morgundaginn verður skoðað nánar hjá Vegagerðinni í kvöld en viðbúið er að fleiri leiðir kunni að lokast en í dag.