Viðurkenning á að náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs hafi gildi fyrir allt mannkyn

Vatnajökulsþjóðgarður var í dag tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stjórnarformaður þjóðgarðsins segir tækifæri felast í viðurkenningunni fyrir Austfirðinga ef rétt verður haldið á spilunum.

„Það er stórkostlegt að þjóðgarðurinn hafi verið tekinn inn á listann. Það er viðurkenning á að náttúra hans hefur gildi fyrir allt mannkyn,“ segir Guðrún Áslaug Jónsdóttir, formaður stjórnar þjóðgarðsins.

„Það er erfitt að segja hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þjóðgarðinn. Hann er nú kominn á lista yfir verðmætustu náttúruverndarsvæði heims og þar með verður hann væntanlega eftirsóknarverður að heimsækja. Ég gæti trúað að við fengjum öðruvísi gesti en áður, kröfuharða náttúruunnendur.“

Eigum ekki minna í þjóðgarðinum en aðrir

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Undirbúningur að því að komast á heimsminjaskrána hefur staðið frá árinu 2016 en umsóknin var formlega staðfest í byrjun síðasta árs. Þjóðgarðurinn var síðast stækkaður fyrir viku þegar Herðubreið og Herðubreiðarlindir bættust við.

Þjóðgarðinum er skipt upp í fjögur umsjónarsvæði. Austursvæðið tilheyrir tveimur sveitarfélögum, Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi. Í grófum dráttum nær það frá Jökulsá á Fjöllum til Lónsöræfa, en innan þess er norðausturhluti Vatnajökuls, Snæfell og Snæfellsöræfi, Brúaröræfi auk Kverkfjalla. Því er þar bæði háhitasvæði og jöklar, votlendissvæði og auðugt fugla-, dýra- og plöntulíf.

Í umsókninni sem tekinn var fyrir á fundi UNESCO í Bakú í Aserbaídjan í dag var sérstaklega lögð áhersla á samspil elds og íss. „Austursvæðið á hlut í öllum þessum verðmætum sem talin eru upp í umsókninni. Við eigum jökla, yngsta hraunið, jarðhita, stórkostlegar gróðurminjar, víðerni, sanda, ár og uppsprettur,“ bendir Guðrún á.

„Við eigum ekki minni hlut í þjóðgarðinum en önnur landssvæði. Því ættu tækifærin til að fanga þá sem hugsanlega fá augastað á þjóðgarðingarðinum allt eins að vera hér. Allt veltur þó á hvernig við höldum á spilunum. Við verðum að nýta og þróa tækifærin á sjálfbæran hátt til að spilla ekki svæðunum.“

Hefur ekki áhrif á nýtingu sem þegar er

Guðrún segir að engar aukalegar kvaðir fylgi því að hafa hlotið útnefninguna. „Þetta setur meiri pressu á okkur um að standa okkur og mæta þeim væntingum sem til okkar eru gerðar. UNESCO segir hins vegar ekki að við þurfum að gera neitt öðruvísi en til þessa, nema standa við þær áætlanir um verndun og nýtingu sem við höfum sjálf komist að niðurstöðu um að séu skynsamar. Það verða engar lokanir sem við kærum okkur ekki um.

UNESCO skoðaði okkar stjórnunar- og verndaráætlanir. Þetta á ekki að hafa áhrif á nýtingu sem staðar er. Við fáum hins vegar athugasemdir ef við förum ekki eftir okkar áætlunum.

Ef áhugi á þjóðgarðinum eykst er augljóst að sums staðar mun vanta innviði til að taka við gestunum. Þetta setur pressu á þjóðgarðsyfirvöld, landsyfirvöld og almenning í nágrenni þjóðgarðsins, að nýta tækifærin og gera þjóðgarðinn að því sem hann getur orðið.“

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir fjórðung af miðhálendi Íslands. 85% hans eru flokkuð sem víðerni. Hann er þriðja svæðið á Íslandi til að komast á heimsminjaskrána. Fyrstir urðu Þingvellir árið 2004 og Surtsey bættist við árið 2008.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.