Vilja að fólk haldi sig til hlés í 14 daga eftir komuna austur
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur þá sem koma til Austurlands eftir dvöl á höfuðborgarsvæðinu til að halda sig til hlés í 14 daga eftir að komið er inn á svæðið til að hindra útbreiðslu Covid-19 smita.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar frá í dag.
Þar segir að aðgerðastjórnin viti til þess að margir hafi áhuga á að færa sig á milli landshluta í ljósi ástands faraldursins. Því áréttar hún tilmæli sóttvarnayfirvalda um að fólk ferðist alls ekki frá höfuðborginni út á land, nema að brýna nauðsyn beri til.
Undirstrikað er að veiðiferðir, vinnustaðaferðir og fleira slíkt teljist ekki til brýnna erinda nema nauðsyn beri til.
Í þeim tilvikum þar sem fólk telur nauðsynlegt að fara á milli landssvæða hvetur aðgerðastjórnin fólk til þess að gæta sérstaklega að sér í samskiptum við aðra og halda sig til hlés í 14 daga eftir komuna austur.
Aðgerðastjórnin óskar þess að þessi tilmæli hennar séu virt því aðeins með þessu sé hægt að tryggja að smit berist ekki á milli landssvæða, meðan aðrar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar.
Staðan er enn óbreytt eystra hvað varðar að aðeins eitt virkt smit er skráð samkvæmt Covid.is. Fimm eru i sóttkví.