Vilja ekki að starfsfólk ferðaþjónustu verði skilið eftir á vergangi

Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags segist hafa áhyggjur af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu í þeim efnahagsþrengingum sem verða vegna heimsfaraldurs Covid-19 veirunnar. Sumt starfsfólkið er með húsnæði innifalið í sínum ráðningarsamningum.

Félagið hefur þegar hafið undirbúning að því að veita ráðgjöf og aðstoð vegna fjöldauppsagna í ferðaþjónustu. Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir að þegar hafi fjöldi austfirskra fyrirtækja haft samband við félagið, en fyrirsjáanleg eru mikil áhrif á ferðaþjónustu vegna ferðabanns fjölda ríkja.

Samkvæmt upplýsingum frá þessum fyrirtækjum er talsvert um afbókanir á gistingu og annarri þjónustu og því mikil óvissa varðandi rekstur sumarsins. „Því hafa fyrirtæki verið að draga lappirnar í að ráða í sumarafleysinga,“ segir Sverrir.

Eins hafi félagsmenn haft samband þar sem ráðningarsamningum er rift fyrirvaralaust með vísan til verulegra afbókana og fyrirsjáanlegt verkefnaskorts. Sverir segir að félagið muni veita félagsmönnum sínum fulla þjónustu og þótt erfitt sé um vik nú verði launagreiðendur að virða bæði kjara- og ráðningarsamninga.

Í mörgum ráðningarsamningum er ákvæði um að vinnuveitandi sjái starfsmanni fyrir húsnæði. Þegar starfssamningnum sé sagt upp gildi hið sama um húsnæðið. Sverrir segir AFL hafa miklar áhyggjur af erlendum starfsmönnum í slíkri stöðu og sumir þeirra komist jafnvel ekki heim til sín.

„Við höfum haft samband við Alþýðusambandið, Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytið til að vekja athygli á þessu. Við vonumst eftir að stjórnvöld og atvinnulífið beini tilmælum til hótela um að starfsfólk fái að gista þar meðan óvissan ríkir.

Við höfum þegar haft samband við stærstu hótelin á Egilsstöðum og fengið mjög jákvæð svör um að engum verði vísað út. Jafnvel verði þeir boðnir velkomnir sem ekki eigi í önnur hús að vernda, hvort sem þeir hafi unnið hjá fyrirtækinu eða ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.