Vilja fremur langtímaleigu á Faktorshúsinu en beina sölu

Eigendur Goðaborgar sem rekið hafa starfsemi með góðum árangri í Faktorshúsinu á Djúpavogi frá því snemma í vor sýna því nú áhuga að eignast húsið alfarið. Heimastjórn þorpsins leggst þó gegn slíku.

Líf hefur nú verið í hinu sögufræga Faktorshúsi síðan í aprílmánuði eftir að þar opnaði samkomuhúsið Faktor brugghús en að baki því stendur eigandi fyrirtækisins Goðaborgar, Elís Pétur Elísson, sem eyddi töluverðum tíma og fjármunum til að gera staðinn vistlegan áður en til opnunar kom.

Hann segir meira hægt að gera innandyra en orðið er en sveitarfélagið þurfi að gera upp við sig hvort það vilji selja húsið áður en lagt verður í meiri framkvæmdir.

„Þetta snýst dálítið um hver á að fara í verkin á staðnum. Við sjáum þarna ágætan rekstrargrundvöll fyrir okkur en viljum nýta húsnæðið enn betur en þegar er orðið. Þar er ágætur kjallari sem hægt væri að nýta og sömuleiðis ris hússins til að gera þetta enn vistlegra og fallegra. Núverandi eigendur þurfa auðvitað að hafa þá fjármagn og vilja til að fara í það sem eftir er að gera nema við kaupum húsið og afgreiðum það sjálfir.“

Heimastjórn Djúpavogs fyrir sitt leyti tók ekki vel í sölu þessa merka húss heldur lagði til við byggðaráð Múlaþings að reyna fremur að leita langtímasamninga við Goðaborg um rekstur þar innandyra. Stóru máli skipti í þessu sambandi að skipulag miðsvæðis þorpsins verði klárað svo hægt verði að setja skilmála á lóðum á miðbæjartorfunni og þannig tryggja að ekki sé hægt að hafa í húsunum hvaða starfsemi sem er. 

Byggðaráð tók undir þessar ábendingar heimastjórnar á fundi sínum í vikunni og fól sveitarstjóra að ræða við leigutakann um langtímaleigusamning og áframhaldandi uppbyggingu þess. Verður málið aftur tekið fyrir þegar niðurstöður þeirra viðræðna liggja fyrir.

Rekstur Faktors brugghúss gengið vel frá opnun en hver skal kosta þær framkvæmdir sem enn eru eftir? Mynd Faktor brugghús

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.