Vilja ráða verkefnastjóra fyrir Finnafjarðarverkefnið
Hreppsráð Vopnafjarðar hefur samþykkt samhljóða að leita eftir opinberum fjárstuðningi til að ráða tímabundið verkefnisstjóra fyrir Finnafjarðarverkefnið.Fjallað er um málið á vefsíðu Vopnafjarðar. Þar segir að sveitarstjóri hafi greint frá stöðu mála í Finnafjarðarverkefninu á fundi hreppsráðsins í gærdag. Þar var greint frá beiðni FFPA þ.e. Finnafjarðarhafnar um ráðningu verkefnisstjóra.
Í bókun segir að hreppsráð Vopnafjarðarhrepps samþykkir að senda samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra erindi þar sem leitað er eftir fjárstuðningi til Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps við ráðningu verkefnisstjóra tímabundið til að sinna helstu verkefnum tengdum Finnafjarðarverkefninu. Þetta erindi verði sent og unnið í samvinnu við sveitarstjórn Langanesbyggðar.
Ennfremur kemur fram að hlutverk verkefnisstjóra verði m.a. að vinna að viðræðum við landeigendur, fylgja eftir mikilvægum málum er upp koma hverju sinni og þörf er fyrir til að koma á hafnsækinni starfsemi í Finnafirði. Þessi stuðningur er ekki háður aðkomu ríkisins að verkefninu að öðru leyti.