Vilja standa vörð um helgidagafriðinn

Héraðsnefnd Austurlandsprófastsdæmis vill að Þjóðkirkjan standi vörð um lög um helgidagafrið sem „stoð mannréttinda á kristnum grunni.“


Þetta kemur fram í ályktun sem nefndin sendi stjórn Prestafélags Íslands í gærkvöldi. Undir hana rita sr. Davíð Baldursson, Ólafur Eggertsson og sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir.

Í fréttum í gær kom fram að Prestafélag Íslands hefði sent inn jákvæða umsögn um frumvarp þingmanna Pírata og Bjartrar framtíðar um að lög um helgidagafrið verði afnumin.

Tilgangur laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar sem eru: Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, annar dagur hvítasunnu, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, aðfangadagur jóla og jóladagur.

Í umsögn stjórnar Prestafélagsins segir að lögin eigi ekki lengur við í nútíma samfélagi þar sem fólk aðhyllist mismunandi trúarbrögð. Ekki sé eðlilegt að fólki sé refsað fyrir ákveðnar skemmtanir á helgidögum kristins fólks.

Í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrrnefndir dagar teljist frídagar sem og sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní. Í greinargerð segir að íslenskt samfélag hafi breyst undanfarin ár og ekki sé rétt að takmarka frelsi til skemmtana svo sem bingós þannig að það varði sektum.

Að auki hafi straumur ferðamanna til landsins aukist, einkum um jól um páska. Rétt sé að atvinnurekendur ákveði sjálfur hvort þeir hafi opið en í samráði við starfsmenn.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.