Vilja tengja saman útivist, menningu og sögu

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (FFF) og Kaupvangur, menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga, hafa sameinast um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökuldalsheiðinni og heiðunum þar í kring. Nú hefur verið gefinn út leiðbeinandi bæklingur um verkefnið.


„Bæklingurinn inniheldur stutt sögulegt yfirlit á íslensku og ensku yfir 26 heiðarbýli á Jökuldalsheiði, Vopnafjarðarheiði og Almenningi í Selárdal, sem fóru í eyði á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Auk þess er í honum að finna GPS-staðsetningu býlanna og myndir,“ segir Þorvaldur B. Hjarðar, formaður FFF.

Þorvaldur segir að hjá hverju býli sé að finna hólk sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, ásamt gestabók og stimpli. „Göngugarpar eru hvattir til þess að safna stimplum, en þar til gerð kort eru til sölu í Sænautaseli og á upplýsingamiðstöðvum á Egilsstöðum og Vopnafirði og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.“

Tvær afasystur Þorvaldar bjuggu á heiðunum
Þorvaldur segist alla tíð hafa haft áhuga á heiðarbýlunum. „Það er svo margt sem ég tengi við en tvær afasystur mínar áttu heima á heiðunum á tímabili, auk þess sem ég er sjálfur frá Hjarðarhaga í Jökuldal.“

Þorvaldur segir áhuga á heiðarbýlunum sífellt vera að aukast. „Það er mjög skemmtilegt fyrir fólk að sjá hvernig forfeður þeirra bjuggu en Sænautasel hefur nú helst dregið vagninn. Það er skemmtilegt frá því að segja að í gestabókinni í Fögrukinn hefur fólk frá Ameríku skrifað að nú hafi það komið á stað forfeðra sinna, en eftir Öskjugosið fluttust 2000 manns til Ameríku og öll heiðin lagðist í eyði. Ferðafélagið hefur mikinn áhuga á því að tengja saman útivist, menningu og sögu og þessar gönguferðir gera það svo sannarlega.“

Vegvísar og hnit auðvelda leitina
Þorvaldur segir félagið aðeins standa fyrir einni skipulagðri göngu á sumri en leiðbeini annars göngufólki. „Við settum upp vegvísa síðastliðið sumar auk þess sem flestir eru núorðið með síma þar sem hægt er að setja inn GPS-hnit sem auðvelda leitina að býlunum.“

Á hverju hausti eru þeim sem skila inn tíu stimplum veittar viðurkenningar, auk þess sem þeir lenda í potti þar sem dregið er um veglega vinninga í september. Þorvaldur segir að verkefnið hefði ekki verið gerlegt nema fyrir tilstilli styrktaraðila þess, Samfélagssjóðs Alcoa og Menningarsjóðs Fljótsdalshéraðs.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.