Vilja vekja athygli á fatasóun
Á degi íslenskrar náttúru setti Umhverfisráð Verkmenntaskóla Austurlands upp fataksiptaslá í skólanum. Þar geta nemendur hengt upp föt sem þau vilja gefa og tekið önnur sem þau vilja eiga. Með vilja þau vekja athygli á fatasóun og veita nemendum tækifæri að endurnýta fötin.
„Fataskiptasláin var sett upp í fyrra í nokkrar vikur og við í umhverfisnefnd VA ákvaðum að skella henni aftur upp í tilefni dags íslenskrar náttúru. Sláin er til þess að vekja áhuga á fatasóun og þeim skaðlegu áhrifum sem “fast-fashion” eða skynditíska hefur á umhverfið,“ segir Anna Karen Marínósdóttir, fulltrúi nemenda í umhverfisráði VA.
Skynditíska
Fast-fashion eða skynditíska er hugtak yfir það hvernig neysluhyggja fólks hefur breytt tískuiðnaðinum. „Áður var meira áhersla lögð á gæði og endingu fatnaðar en kröfurnar hafa breyst og nú vilja neytendur fá sem mest fyrir sem minnstan pening, fólk lítur jafnvel á fatnað sem einnota varning,“ segir hún
Þessi skynditíska hefur neikvæð áhrif á umhverfið segir Anna Karen og bætir við að þetta ýti undir mikla fjöldaframleiðsu af fatnaði sem er oft framleiddur með eitruðum efnum sem menga vatn. „Textíllitaefni eru næst stærsti mengill á hreint vatn á alheimsvísu á eftir landbúnaði. Ásamt því að skilja eftir sig mikið magn af textílúrgangi endar mikið magn af örplastefnum sem má finna í fötum úr polyester í sjónum. Það gerist þegarþau eru þvegin," segir Anna Karen og bætir við að polyester efnið er mjög vinsælt efni til að nota í föt og vandamálið því stórt.
Hún nefnir líka að meðferðin á þeim sem vinna að því að framleiða fatnaðinn. Þau vinna við slæmar aðstæður og mjög lélegt kaup. Það er allt vegna þess að fólk krefst meiri fatnaðar fyrir lægra verð.
"Þess vegna er alltaf betra að kaupa notuð föt, það minnkar eftirspurnina, minnkar úrganginn og þá hafa fötin þegar verið þvegin og búin að losa sig við örplastið sem minnkar þá örplast í sjónum," segir hún.
Grænfáninn
Á vef Verkmenntaskólans kemur fram að Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
„Umhverfisnefndin er að vinna að því að halda Grænfánanum sem skólinn fékk í fyrra, 2018 eftir tveggja ára starf í þessu verkefni. Skólinn þarf að ná þessum ákveðnu markmiðum til að halda fánanum og er þetta liður í þeirri vinnu. Eitt markmiðunum er að auka umhverfisvitund nemenda með menntun og verkefnum sem fara fram í gegnum námið eða verkefnum einsu fataskiptaslánni,“ segir Anna Karen að lokum.
Anna Karen Marínósdóttir fulltrúi nemenda í Umhverfisnefnd VA