Viljayfirlýsing undirrituð um stórskipahöfn í Finnafirði
Viljayfirlýsnig um áframhaldandi samstarf um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði var undirrituð í Alþingishúsinu á laugardag. Aðild að henni eiga sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur, Bremenports GmbH & Co.KG og verkfræðistofan Efla.
Viljayfirlýsingin er framhald af samstarfssamningi sem viðkomandi aðilar undirrituðu í maí 2014. Viljayfirlýsingin tekur á þáttum sem koma þarf í farveg til þess að verkefnið geti þróast áfram.
Viljayfirlýsingin gildir til ársins 2020 og í samtali við Austurgluggann nýverið sagði Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, innihald yfirlýsingarinnar vera trúnaðarmál en hún innihaldi ákveðið framtíðarplan.
„Það er mest undirbúningsvinna til ársins 2020. Það er ekki von á neinum stórum framkvæmdum á þessum árum. Málin fara í ákveðin feril og verða rýnd betur og skoðuð.“
Mikilvægt sé að ríkið komið að undirbúningum fyrir framkvæmdina með sem sé „hagmunamál landsins alls“ með uppbyggingu innviða.
Framkvæmdin sé umfangsmikil og það stór að sveitarfélögin tvö geti ekki ein borið þungann af henni. Mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar og ekki settar skuldbindingar á þau sem þau geti ekki staðið við.
Viljayfirlýsinguna undirrituðu Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, Robert Howe framkvæmdarstjóri Bremenports og Hafsteinn Helgason verkfræðingur hjá Eflu. Viðstaddir voru sendiherra Þýskalands á Íslandi Herbert Beck og Martin Günthner, ráðherra.