Vill fleiri bílastæði við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði

“Mikil þörf er á úrbótum á bílastæðamálum safnsins þar sem aðgengið að safninu er mjög þröngt og oft á tíðum hættulegt sérstaklega þegar um er að ræða stærri rútur.”


Þetta kemur fram í minnisblaði frá Pétri Sörenson forstöðumanni Safnastofnunnar Fjarðabyggðar þar sem hann fjallar um málefni Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði.
Minnisblaðið var nýlega lagt fram á fundi Menningar- og nýsköpunarnefnd sem í framhaldinu hefur óskað eftir við eigna- skipulags- og umhverfisnefnd að hafin verði vinna við gerð deiliskipulags fyrir safnasvæði Íslenska Stríðsárasafnsins.

“Umhverfis- og skipulagssvið Fjarðabyggðar hefur unnið að mótun tillögu um endurskoðun aðalskipulags Fjarðabyggðar. Í tillögunum er safnasvæði Íslenska stríðsárasafnsins skilgreint sem samfélagsþjónusta,” segir Pétur í minnisblaði sínu.

“Þann 18. mars hafði undirritaður samband við skipulagsfulltrúa Fjarðabyggðar varðandi deiliskipulag svæðisins. Fram kom í því samtali að svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt og ekki hafa verið gerðar áætlanir um deiliskipulag svæðisins á næstunni. Mikilvægt að gerð deiliskipulags svæðisins hefjist sem fyrst svo hægt verði að gera áætlanir um frekari uppbyggingu og þróun safnsins.”

Þá kemur fram að á þessu ári var fjarlægður skáli (ótengdur safninu) af safnasvæðinu sem að opnar möguleika á að gerð verði bílastæði fyrir rútur og einkabifreiðar.

“Mikil þörf er á úrbótum á bílastæðamálum safnsins þar sem aðgengið að safninu er mjög þröngt og oft á tíðum hættulegt sérstaklega þegar um er að ræða stærri rútur. Með gerð nýrra bílastæða kemur aðgengið að safninu til með að gjörbreytast og hægt verður að taka á móti fleiri gestum á sama tíma, sérstaklega er varðar hópferðabíla (skemmtiferðaskip),” segir í minnisblaðinu

“Staðsetning safnasvæðisins býður uppá mikla útivistarmöguleika þar sem tenging er við göngustíga og náttúruperlur s.s. Búðarárgil og Búðarárfoss. Það er mat mitt að deiliskipulag svæðisins taki mið af þeim fjölmörgu möguleikum sem að svæðið býður uppá og að safnasvæðið geti orðið skipulagt útivistarsvæði fyrir íbúa Fjarðabyggðar og gesti þar sem boðið verði uppá aðstöðu til útivistar (t.d. borð og aðstaða til að grilla) og afþreygingar-möguleika fyrir börn og þá sem eldri eru, t.d. bootcamp eða eitthvað þessháttar.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar