Vill gera kynjafræði að skyldunámsgrein
Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna úr Neskaupstað, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að kynjafræði verði skyldufag á ölum námsgreinum. Hún telur mikilvægt að vinna gegn úreltum hugmyndum um að eðli og hlutverk karla og kvenna séu ólík.Ingibjörg lagði tillöguna fram þegar hún sat á þingi fyrr í mánuðinum sem varamaður fyrri Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur.
Tillagan gerir ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp til að vinna að breytingu á aðalnámskrám leik-, grunn-, og framhaldsskóla og geri tillögu að breytingu á kennaranámi svo allir kennarar öðlist lágmarksþekkingu á kynjafræði sem námsgrein. Tillögurnar verði klárar fyrir 1. desember.
Í greinargerð með tillögunni segir Ingibjörg að markmiðið sé meðal annars að vinna gegn úreltum staðalímyndum kynjanna sem hafi áhrif á ráðningar í stjórnunarstörf og launakjör, viðhorf til kynbundins ofbeldis og styrkja sjálfsöryggi stúlkna og auka tilfinningalegt frelsi drengja.
Þá segir Ingibjörg að stórir hópar samfélagsins kalli á þessa breytingu eins og hreyfingar undanfarinna missera, til dæmis #metoo, beri vot um. Besta leiðin til að breyta grunnhugmyndum um kyn sé í gegnum menntakerfið.