Vill kaupa þjónustumiðstöðina á Fáskrúðsfirði
Meta ehf. hefur óskað eftir því að kaupa þjónustumiðstöðina á Fáskrúðsfirði. Íbúasamtök Fáskrúðsfjarðar hafa sent bæjarráði fyrirspurn um málið.Meta sendi nýlega bréf til bæjarráðs þar sem óskað var eftir viðræðum um kaup á þjónustumiðstöðinni. Bæjarráð vísaði erindinu til umsagnar í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd og hafnarstjórn.
Í bókun bæjarráðs kemur fram að eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd telur að áður en hægt er að taka afstöðu til bréfs Meta þurfi að skoða hvort möguleiki sé á að samnýta húsnæði Þjónustumiðstöðvar á Fáskrúðsfirði og hafnarsjóð sveitarfélagsins. Verið er að sameina þá starfsemi á Norðfirði og Reyðarfirði. Nefndin felur sviðsstjóra framkvæmdasviðs að þarfagreina og koma með tillögur að mögulegri samnýtingu húsnæðis á Fáskrúðsfirði, án skertrar þjónustu og leggja fyrir nefndina að nýju eftir fund hafnarstjórnar þar sem málið verður tekið fyrir.
„Ekki stendur til að skerða þjónustu á Fáskrúðsfirði þrátt fyrir að verið sé að skoða framkomna fyrirspurn,“ segir í bókun þar sem fjallað er um fyrirspurn íbúasamtakanna.
„Stefna sveitarfélagsins hefur verið að fækka eignum og samnýta betur, m.a. húsnæði þjónustumiðstöðva og hafna, samanber það sem gert hefur verið á Norðfirði og Reyðarfirði. Málið verður tekið fyrir að nýju í bæjarráði þegar umsagnir fastanefnda liggja fyrir.“