Vínbúðin á Djúpavogi styttir opnunartímann vegna mannfæðar

Frá og með deginum í dag skerðist þjónusta Vínbúðarinnar á Djúpavogi töluvert því opnunartími hefur verið takmarkaður verulega vegna mannfæðar.

Verslunin verður eftirleiðis einungis opin í sex klukkustundir í viku hverri eða tvær klukkustundir þrjá daga vikunnar út sumarið en hugsanlega takmarkast opnunartíminn enn frekar í vetur. Við skoðun Austurfréttar á opnunartíma Vínbúða í öllu landinu kemur í ljós að nú státar Djúpivogur af stysta opnunartímanum af þeim öllum en þar verður aðeins opið á milli 16 og 18 mánu-, miðviku- og föstudaga eftirleiðis.

Ingi Ragnarsson, fulltrúi Djúpavogs í heimastjórn svæðisins, telur þetta ekki valda stórum vandræðum. Hann viti ekki til þess að dagdrykkja sé áhugamál hjá neinum íbúum.

„Hugsanlega gæti þetta verið neikvætt fyrir ferðafólk sem mikið er af um þessar mundir en ef þorsti kveður að fyrir opnun verslunarinnar hefur fólk nokkra möguleika hér annars staðar í bænum.“

ÁTVR hefur um langa hríð reynt að manna verslun sína á staðnum með auglýsingum en Ingi segir Djúpavogsbæ glíma við sama vanda og aðrir austfirskir byggðakjarnar að þar sé lítið sem ekkert af lausu húsnæði sem sé auðvitað allra stærsti þröskuldurinn við að fjölga íbúum og þar með auka úrval vinnandi handa.

„Það er verið að byggja hér þrjú raðhús um þessar mundir og þar af tvö þeirra af leigufélaginu Bríeti. Mér skilst að það verkefni gæti klárast á þessu ári en þess utan er ekki í mörg hús að venda hér á svæðinu ef fólk vill setjast hér að.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.