Vinnu hætt á skriðusvæðinu

Búið er að rýma svæðið á svæði stóru skriðunnar á Seyðisfirði sem og starfssvæði Síldarvinnslunnar í öryggisskyni eftir að vart varð við los á jarðvegi utarlega í skriðusvæðinu.

Ákvörðun um þetta var tekin skömmu fyrir hádegið eftir að fréttir bárust um los á svæðinu utan við stóru skriðuna. Þar hangir fleki sem talinn hefur verið óstöðugur og fylgst er nákvæmlega með.

Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, segir ekki sé ljóst hvort einhver hætta sé á ferðum, ekkert hafi fallið úr svæðinu enn, en engin áhætta verði tekin.

Sömuleiðis var ákveðið að rýma frystihús og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar þótt þær byggingar teljist utan áhrifasvæðis. Starfsfólk þar fékk far með togaranum Gullver inn í bæinn.

Nokkur rigning var á Seyðisfirði í nótt en stytti að mestu leyti upp í morgun. Jens segir veður þar hið skaplegasta og hlýtt en vissulega rakt.

Spáð er talsverðri rigningu á laugardag og er að sögn Jens vel fylgst með þeirri veðurspá. „Það hefur verið fundað um hana á vegum almannavarna. Þegar spáin skýrist betur á morgun verður fundað aftur og tekin ákvörðun um næstu skref, meðal annars hvort gripið verði til rýminga.“

Í tilkynningu frá lögreglu segir að um klukkan hálf tólf í dag hafi borist ábendingar um að sprunga sem myndaðist út frá stóru skriðunni hefði hugsanlega gliðnað. Allar slíkar ábendingar séu teknar alvarlega. Samkvæmt gögnum Veðurstofunnar sé ekki að sjá neina hreyfingu en verið er að skoða það. Vonast er til að niðurstöður þeirrar skoðunar liggi fyrir fljótlega. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar