Virkt umferðareftirlit komi í veg fyrir alvarleg slys

Lögreglan á Austurlandi hefur tekið töluvert af ökumönnum fyrir of hraðan akstur það sem af er sumri. Hraðast er ekið á Háreksstaðaleið. Yfirlögregluþjónn segir markmið sýnilegs umferðareftirlit að koma í veg fyrir alvarleg slys.

„Við teljum það frumskyldu okkar að gæta öryggis almennings og í umferðinni gerum við það með að vera sýnileg á vegunum. Markmiðið er að koma í veg fyrir alvarleg slys,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Hann segir að mikið hafi verið um hraðakstur og umferðarlagabrot í umdæminu það sem af er sumri. Algengast að ökumenn séu gripnir á um 110 km/klst hraða en þú hafi ökumenn mælst á frá 140-160 km hraða.

Hraðast er ekið á Háreksstaðaleið og hefur lögreglan þar verið vel sýnileg í sumar. „Það hefur verið settur aukinn þungi í að vakta það svæði og þannig verður áfram. Lögreglan á Vopnafirði hefur staðið sig mjög vel í að vera þar á ferðinni.“

Einnig er nokkuð greitt ekið um Fagradal og Heiðarenda. Hraðinn minnkar hins vegar þegar sunnar í umdæmið kemur í samræmi við vegina.

Sumarið hefur annars verið rólegt hjá lögreglunni á Austurlandi og til dæmis kom ekkert mál upp um helgina tengt bæjarhátíðinni Vopnaskaki á Vopnafirði. Um 400 manns munu þó hafa mætt þar á Hofsball.

Á Eskifirði var hins vegar skemmdur bíll, sparkað í hann og hann belgdur. Málið telst upplýst.

Ekki hafa borist tilkynningar um erlend þjófagengi eins og herjuðu á Austfirðinga síðasta sumar. Jónas telur það meðal annars að þakka betri undirbúningi lögreglu og bættu landamæraeftirliti. „Ég held að greiningarnar séu orðnir betri þannig menn átti sig betur á hverjir séu að koma til landsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.