Vistvæn breyting hjá Húsi Handanna
Töluverðar breytingar standa fyrir hjá Húsi Handanna á Egilsstöðum sem rekja má til eflingu stafrænnar upplýsingagjafar og breyttra neysluhátta landans. Lögð verður áhersla á vistvænar vörur í versluninni.
Sölumiðstöðin Hús Handanna er einkahlutafélag 25 hluthafa: einstaklinga, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila Austurlandi. Upplýsingamiðstöð Austurlands, landshlutamiðstöð á vegum Ferðamálastofu, hefur verið rekin þar frá árinu 2015 en nú verður breyting þar á.
„Ferðamálastofa hyggst leggja niður allar upplýsingamiðstöðvar á hennar vegum og þess í stað einbeita sér að stafrænni upplýsingagjöf og láta ferðaþjónustuaðila og sveitarfélög sjá um að upplýsa ferðamenn um land og þjóð. Við þessu þarf stjórn Húss Handanna að bregðast með því að endurskipuleggja reksturinn. Við munum þó leita leiða til að halda áfram með lifandi upplýsingagjöf á þessum fjölförnustu gatnamótum Austurlands með öllum tiltækum ráðum. Við erum að þróa hugmyndir um eins konar einkarekna upplýsingamiðstöð með aðkomu ferðaþjónustunnar og fleiri hagsmunaaðila,“ segir Lára Vilbergsdóttir, framkvæmdastjóri Húss Handanna.
Mikil áskorun að reka verslun í dag
Samhliða breytingunni hefur Hús Handanna einnig endurskoðað áherslur í vöruframboði sínu. „Það er mikil áskorun að reka verslun í dag, en eins og allir vita eru bæði verslunar- og neysluhættir fólks að breytast hratt. Við tökum þessum breytingum fagnandi og viljum leggja okkar af mörkum til umhverfismála með því að bjóða vöru með eins stutt kolefnisfótspor og kostur er, en frá upphafi hefur verslunin lagt áherslu á að selja vöru eftir íslenska vöruhönnuði og listhandverksmenn. Við höfum hvatt viðskiptavini okkar til að kaupa vörur sem hafa „auka virði“; sem byggja á íslensku hugviti, hráefni og menningu,“ segir Lára.
Hús Handanna hefur unnið umhverfisstefnu fyrir fyrirtækið og er innleiðing á henni hafin. „Við munum auka úrval sælkeravöru til muna. Einnig höfum við hafið sölu á ýmsri umhverfisvænni vöru sem hjálpar fólki að losa sig við plast og eiturefni úr lífi sínu og umhverfi. Auk þess erum við að framleiða okkar eigin vörulínu sem framleidd verður í héraði og aðeins samkvæmt eftirspurn. Þá er einnig hafin þróunarvinna á gjafakortum en með þeim verður hægt að kaupa mismunandi upplifanir á Austurlandi í samstarfi við ferðaþjóunustuaðila.
Við trúum því að bjartir tímar séu framundan þrátt fyrir að við finnum sterkt fyrir að fólk sé að draga úr neyslu. Það er mikilvægt að verslunareigendur almennt skoði hvað hægt sé að gera til að hvetja fólk að vanda valið og séu með valkosti sem að draga úr mengun og óþarfa framleiðslu á hlutum sem enda sem rusl morgundagsins,“ segir Lára.
Stór og sterk á tíu ára afmælinu
Hús Handanna fagnar tíu ára afmæli næsta sumar. „Reksturinn hefur verið þungur meira og minna frá stofnun fyirtækisins en síðastliðin þrjú ár hefur orðið viðsnúningur í rekstrinum og er stjórn félagsins sannfærð um að fyrirtækið geti vaxið og dafnað. Endurskipulagning á fjárhagi stendur yfir og í haust fáum við nýja hluthafa til liðs við okkur. Stefnan er tekin á að við verðum orðin stór og sterk á tíu ára afmælinu,“ segir Lára.