Vék FME manni úr stjórn sem var löngu hættur?

stapi_logo.jpg
Fjármálaeftirlitið (FME) tilkynnti í dag að það hefði einhliða vikið Sigurði Jóhannessyni úr stjórn lífeyrissjóðsins Stapa. Tilkynningin vekur athygli þar sem samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum hætti Sigurður í stjórninni í vor.

Í tilkynningu FME frá í dag segir að eftirlitið hafi „einhliða“ vikið Sigurði frá störfum sem stjórnarmanni Stapa þar sem hann teldist ekki uppfylla hæfisskilyrði sem gerð eru í lögum um starfsemi lífeyrissjóða.

Í lagagreininni sem FME vísar til segir að „stjórnarmenn skuli búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.“

FME tók ákvörðunina 3. október og gaf Sigurði tvær vikur til að víkja sjálfviljugur, ella myndi eftirlitið gera það sjálft. „Hinn  6. desember  2012,  rúmum sjö vikum eftir að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins barst honum, hafði Sigurður ekki enn orðið við kröfu stjórnar  stofnunarinnar um að láta af störfum og af þeim sökum vék Fjármálaeftirlitið honum frá.“

Það vekur hins vegar athygli að í upptalningu á stjórnarmönnum á vef sjóðsins er nafn Sigurðar ekki í þeirri stjórn sem nú situr við völd. Þar er hins vegar dagsetning við einn stjórnarmann sem tók sæti í haust eftir að annar hætti störfum.

Skýringin virðist einfaldlega sú að Sigurður gekk úr stjórn Stapa á síðasta aðalfundi þann 8. maí. Í frétt á vef Stapa þar sem sagt er frá aðalfundi félagsins segir:

„Tveir stjórnarmenn, þeir Þórarinn Sverrisson og Sigurður Jóhannesson gengu úr stjórn og í þeirra stað voru kjörin í stjórn þau Orri Freyr Oddsson og Unnur Haraldsdóttir.

Stjórn sjóðsins er því þannig skipuð:
Ágúst Torfi Hauksson stjórnarformaður, Björn Snæbjörnsson varaformaður, Guðrún Ingólfsdóttir, Sigurður Hólm Freysson, Unnur Haraldsdóttir og Orri Freyr Oddsson.“
 
Sigurður Hólm hætti í stjórninni í september. Þorkell Kolbeins tók þá sæti hans. 
 
Stapi lífeyrissjóður varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands. Sigurður tók sæti í stjórn 2010 fyrir hönd atvinnurekenda. Hann var formaður 2010-2011 og varaformaður 2011-2012. Hann býr á Blönduósi og starfar sem framkvæmdastjóri SAH afurða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar