Von á öðrum úrkomubakka á morgun

Þörfin á rýmingum vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og Norðfirði verður metin á ný í fyrramálið. Fjallvegir fjórðungsins hafa verið lokaðir í dag.

Þótt gul veðurviðvörun falli úr gildi á miðnætti er áfram búist við úrkomu og skafrenningi til morguns. Þá lægir tímabundið en búist er við öðrum úrkomubakka þá.

Hús í norðanverðum Seyðisfirði og fyrir innan Neskaupstað voru rýmd í gærkvöldi. Fáir einstaklingar búa í húsum á þessum svæðum. Staðan verður metin aftur í fyrramálið og er tilkynningar um stöðuna að vænta um klukkan tíu að loknum fundi Veðurstofunnar og almannavarna.

Ekki hefur snjóað mikið á þessum stöðum í dag og ekki er talin hætta utan rýmdu svæðanna í byggð en staðan er varasöm í fjalllendi.

Vegurinn yfir Fagradal var opnaður seinni partinn í dag en á honum er óvissustig vegna snjóflóðahættu. Aðrir fjallvegir eru flestir ófærir og ýmist ófært eða þæfingur á Héraði. Þar er líka víða mjög blint í kófi. Austfirðingar hafa verið hvattir til að vera ekki á ferð að óþörfu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar