„Vona að fólk finni að við stöndum saman þegar á reynir“

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, segist vonast til þess að þeir íbúar í Neskaupstað sem urðu fyrir áföllum í snjóflóðunum í lok mars finni fyrir stuðningi og samhug annarra landsmanna. Hann segir starf björgunarfólks og annarra viðbragðsaðila á þeim tímum þakkarvert.

Opinber þriggja daga heimsókn forsetans til Fjarðabyggðar hófst í morgun. Fyrir hádegið fór forsetinn meðal annars að fjölbýlishúsunum við Starmýri sem snjóflóðið að morgni mánudagsins 27. mars lenti hvað harðast á.

Þaðan lá leiðin upp að snjóflóðavarnargörðunum undir Drangagili, sem sönnuðu notagildi sitt í hamförunum. Þar gefur enn að líta ummerki eftir atganginn, brotin tré og síðasta skaflinn þótt áhrifamest sé trjágrein sem stendur ein upp úr ofanverðum varnargarðinum.

Við Starmýrarblokkirnar tóku Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað og Sveinn Zoëga, úr svæðisstjórn Landsbjargar, á móti forsetanum og sögðu frá hamförunum ásamt forsvarsfólki Fjarðabyggðar. Daði og Sveinn bentu meðal annars á að mildi væri að flóðið hefði ekki fallið nokkrum mínútum síðar, þegar fólk hefði mögulega verið komið út að moka af bifreiðum sínum.

Magnað að sjá skemmdirnar


„Það er magnað að sjá þessi ógnaröfl sem hér voru að verki. Maður áttar sig ekki á þeim fyrr en maður stendur við byggingarnar og sér skemmdirnar. Það er mildi að ekki fór verr og að ekki hafi orðið mannskaði,“ sagði Guðni eftir heimsóknina á snjóflóðasvæðið í samtali við Austurfrétt.

Hópurinn sagði Guðna einnig frá því hvernig erfiðar minningar frá snjóflóðunum árið 1974, þar sem 12 manns fórust, hefðu rifjast upp í lok mars en einnig hvernig nýjar kynslóðir tækjust á annan og opnari hátt við atburðina nú, tæpri hálfri öld síðar. „Náttúran getur verið eins óblíð og hún getur verið fögur á fallegum degi.“

Mikilvægt að hafa björgunarsveitirnar og sérfræðinga í áfallahjálp


Hann sagðist vonast til þess að Austfirðingar finndu fyrir stuðning bæði forsetaembættisins á stundum sem þessum. „Ég vona að fólki finni það á táknrænan hátt að við stöndum saman þegar á reynir. Auðvitað deilum við um smátt sem stórt, eins og við eigum að gera í öflugu samfélagi þar sem ólíkar raddir þurfa að heyrast, en þegar á reynir sýnum við Íslendingar hvað í okkur býr og það gerðum við á þessari erfiðu stundu.

Í því embætti sem ég gegni nú um stundir get ég þakkað fyrir það sem vel var gert á neyðarstundu. Mér þótti vænt um að hitta fulltrúar björgunarsveitarfólks á vettvangi, við reiðum okkur á þær.

Við þekkjum með hamfarir sem þessar, eins og annað sem dynur á í lífi fólks, að oft fyllist fólk fyrst doða en svo vantar þörfin til að tjá tilfinningar sínar. Þá þurfum við að vera til taks. Því vil ég líka þakka kærlega fyrir áfallahjálpina og fólki með sérþekkingu sem veitir hana þegar fram líða stundir.“

Upphaflega hafði heimsókn forsetans verið áformuð í apríl en henni var frestað um nokkrar vikur vegna snjóflóðanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar