Vonast til að opna Möðrudalsöræfi um hádegið

Öll moksturstæki Vegagerðarinnar á Austurlandi voru komin af stað klukkan níu í morgun. Vonast er til að Möðrudalsöræfi verði orðin fær um hádegið. Ekki er byrjað að moka Fjarðarheiði og ekki útlit fyrir að hún opnist fyrr en seint í dag, takist það á annað borð.

„Aðstæður í fjórðungnum eru erfiðar. Það er alls staðar snjóþungt. Öll moksturstæki hafa verið á ferðinni síðan klukkan sex í morgun,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Stefnt er að því að opna leiðina yfir Möðrudalsöræfi um hádegi. Tæki eru á leið þangað úr þremur áttum: Egilsstöðum, Vopnafirði og Mývatnssveit, bæði ruðningsbílar og snjóblásarar. Búið er að ryðja norðanverðan Jökuldal. Á Vopnafjarðarheiði eru erfiðir kaflar.

Áhersla er lögð á að opna til að hægt sé að flytja nauðsynjar milli landsfjórðunga og til Vopnafjarðar. Óvíst er hversu lengi vegurinn helst opinn. Mikið er af lausasnjó á svæðinu og spáð vindi fram eftir degi sem þýðir að fljótt getur fyllst á veginn. Til að mynda er mikill skafrenningur í Heiðarenda. „Það er ekki sjálfgefið að það takist að halda opnu,“ segir Jens.

Sex tíma til baka yfir Fjarðarheiði


Farið var yfir Fjarðarheiði í gær til að koma olíu í fjarvarmaveituna sem var að verða olíulaus. Snjóblásari og mokstursbíll fóru á undan olíubílnum. Nýtt var tækifæri til að fara yfir en verr gekk að komast til baka eða sex klukkutíma.

Heiðin lokaðist á föstudag fyrir almennri umferð. Beðið er eftir að veðrið lagist til að hægt sé að byrja að moka þar. Enn er því óvíst hvort yfirhöfuð verði opnað til Seyðisfjarðar í dag. „Fjarðarheiðin verður síðust hjá okkur. Þetta er vegur sem er lengi í mikilli hæð og þess vegna er veðrið lengst að ganga niður þar. Hann er okkur mjög erfiður,“ segir Jens.

Stungið í gegn í sveitunum


Mokstursbílar hafa einnig verið á ferðinni í sveitunum á Héraði í morgun. Austurdalur Jökuldals er nánast ófær og segir Jens átak að opna hann. Þungfært er í syðri hluta Jökulsárhlíðar en staðan ekki fullkönnuð í norðurhlutanum. Þungfært er í Hróarstungu en verið að moka og þæfingur í Hjaltastaðaþinghá.

Ófært er í Skriðdal og þungfært Lagarfljótshringinn. Á öllum þessum stöðum verður reynt að koma ruðningsbílum í gegn en viðbúið að það verði víða aðeins einbreitt. Þæfingur og skafrenningur er á Fagradal en þæfingur með snjókomu milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.

Í frétt á vef veðurstofunnar Bliku frá því klukkan tíu í morgun segir að veðrið gangi hægar niður í dag en spáð var. Vindur verði viðvarandi með skafrenningi á fjallvegum. Dregið hefur úr úrkomu en seint í dag eða undir kvöld er von á nýjum úrkomubakka yfir Norðausturland með snjókomu.

Frá Egilsstöðum í gær. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar