Vonast til að talning gangi hratt fyrir sig
Vonir standa til að úrslit í kosningum um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Djúpavogshrepps og Borgarfjarðarhrepps liggi fyrir um miðnætti annað kvöld. Ríflega 3500 manns eru á kjörskrá.Kjörfundur hefst á Borgarfirði og Fljótsdalshéraði klukkan níu í fyrramálið en klukkutíma síðar á Djúpavogi og Seyðisfirði. Honum lýkur klukkan 17 á Borgarfirði og klukkan 18 á Djúpavogi en ekki fyrr en klukkan 22 á Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði.
Þrátt fyrir þetta má ekki byrja að telja á neinum staðanna fyrr en kjörfundi er alls staðar lokið, eða klukkan 22. Þetta þýðir að kjörstjórnirnar á Djúpavogi og Borgarfirði þurfa annað hvort að sitja yfir kjörkössunum eftir að kjörfundi þar lýkur þar til hægt er að byrja að telja, eða innsigla rýmið sem kassarnir eru í. Vonir standa til að talning gangi hratt og verði búin fyrir miðnætti annað kvöld.
Kosningaréttur er sá sami og í sveitarstjórnarkosningum. Alls eru 3513 á kjörskrá, 1801 karl og 1712 konur. Flestir kjósendur eru á Fljótsdalshéraði, 2595, á Seyðisfirði eru 509, 315 á Djúpavogi og 94 á Borgarfirði.
Til að sameiningin gangi í gegn þarf í fyrsta lagi einfaldan meirihluta í hverju sveitarfélagi, óháð kjörsókn. Síðan þurfa annað hvort tveir þriðju hlutar sveitarfélaganna, eða tveir þriðju hlutar íbúa að samþykkja hana. Það þýðir að þótt íbúar í einu hinna minna sveitarfélaga segi nei geta hin þrjú sameinast án frekari undirbúnings. Á móti fellur sameiningin alfarið verði hún ekki samþykkt á Fljótsdalshéraði.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur staðið yfir síðan í byrjun september. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Austurlandi höfðu í morgun alls verði greidd 56 atkvæði utan kjörfundar á Seyðisfirði og 126 á Fljótsdalshéraði. Á seinni staðnum er bæði kosið á sýsluskrifstofunni og á bókasafninu og hefur meirihlutinn kosið á safninu. Ekki lágu fyrir tölur frá Djúpavogi og Borgarfirði.