Vopnafjarðarhreppur gerir upp lífeyrissjóðsgreiðslur

Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps samþykkti á aukafundi í gærmorgun að tryggja að engar skerðingar yrðu á lífeyrissréttindum starfsmanna vegna þess að hreppurinn greiddi of lág iðgjöld um ellefu ára skeið. Sveitarfélagið hyggst gera kröfu um að lífeyrissjóðurinn Stapi komi að málinu. Sjóðsfélagar kalla eftir frekari upplýsingum frá hreppnum um meðferð málsins.

Haustið 2016 varð ljóst að hreppurinn hefði frá árinu 2005 greitt of lág iðngjöld vegna starfsmanna sem voru félagsmenn hjá Stapa. Sjóðurinn fór fram á að sveitarfélagið greiddi höfuðstól iðgjaldanna auk áætlaðrar ávöxtunar tímabilsins, alls um 72 milljónir króna.

Hreppsnefnd samþykkti í júní að greiða höfuðstólinn auk ófyrndra vaxta, rúmar 44 milljónir króna. Sjóðsfélagar gagnrýndu þau málalok og komu á framfæri harðri gagnrýni, meðal annars á íbúafundi í byrjun mánaðarins þar sem uppgjörið var kynnt.

Á fundi hreppsnefndar í gærmorgun var samþykkt að hreppurinn geri upp iðgjöld og vexti þannig starfsfólk hreppsins verði jafnsett öðrum sjóðsfélögum. Til þess tekur hreppurinn lán upp á samtals 77 milljónir króna hjá Lánasjóði sveitarfélaga með lokagjalddaga árið 2055. Af þessari upphæð höfðu 22 milljónir verið áður bókfærðar í reikningum hreppsins en 55 milljónir verða færðar á þetta ár.

Hyggja á skaðabótamál gegn Stapa

Vopnafjarðarhreppur hefur farið fram á að lífeyrissjóðurinn taki á sig hluta af upphæðinni þar sem sjóðurinn hafi sýnt af sér gáleysi með að hafa tekið við skilagreinum athugasemdalaust. Þessu hefur sjóðurinn hafnað á þeim forsendum að hann hafi ekki haft aðgang að nauðsynlegum upplýsingum, hins vegar að mistökin séu alfarið hreppsins og lífeyrissjóðir séu þannig uppbyggðir að ekki sé hægt að bæta réttindi eins án þess að skerða réttindi annars.

Í bókun hreppsnefndar frá því í gær er ítrekuð sú skoðun að Stapi beri hluta ábyrgðarinnar vegna mistaka við innheimtu gjaldanna. Í yfirlýsingu vegna málsins frá Þóri Steinarssyni, sveitarstjóra, segir að viðræður við sjóðinn hafi engu skilað. Sveitarfélagið hafi ákveðið að axla strax sinn hluta ábyrgðarinnar í von um að sjóðurinn gerði slíkt hið sama.

„Til að koma launþegum í skjól í þessu máli gerir því sveitarfélagið tjónið upp að fullu. Það er þó enn skýr afstaða sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps að Stapi lífeyrissjóður beri hluta ábyrgðar í málinu og mun því sækja skaðabætur til sjóðsins fyrir dómstólum vegna þeirra mistaka sem áttu sér stað við innheimtu iðgjaldanna,” segir í yfirlýsingunni.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir að sjóðurinn muni að svo stöddu ekki tjá sig um samþykkt hreppsnefndarinnar.

Fagna ekki fyrr en peningarnir eru komnir á reikninginn

Sigríður Dóra Sverrisdóttir, sjóðsfélagi sem fann villuna á trúnaðarmannanámskeiði hjá AFLi starfsgreinafélagi sagðist aðeins hafa heyrt af samþykkt hreppsnefndar þegar Austurfrétt ræddi við hana seinni partinn í gær, ekki séð hana. Hún er meðal þeirra sem helst hafa gagnrýnt hreppinn, en hún kvaðst ekki hafa verið látin vita af afgreiðslu fundarins í gær.

„Að fenginni reynslu ætla ég ekki að fagna neinu fyrr en peningarnir eru komnir á reikning Stapa. Ef þetta er rétt og stenst þá er ég glöð – en ég vinn ekki aftur fyrir hreppinn,“ segir Sigríður Dóra sem sagði upp störfum í mótmælaskyni.

Hún segir að málinu sé ekki lokið þrátt fyrir samþykktina í gær. „Við höfum óskað eftir að fá að sjá öll gögn málsins. Við viljum vita af hverju þetta hefur gengið svona í þrjú ár.“

Austurfrétt óskaði eftir upplýsingum frá Vopnafjarðarhrepp um annars vegar á hvaða forsendum væntanlegt skaðabótamál yrði höfðað, hins vegar hver væri staðan á afgreiðslu umbeðinna gagna til sjóðsfélaga. Svör hafa ekki borist.

Frá opnum fundi um lífeyrissmálið í september.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.