Vopnafjörður er að fá jafnlaunavottun
Vopnafjarðarhreppur hefur nú klárað seinni úttekt jafnlaunavottunar þar sem staðfest var að jafnlaunakerfi sveitarfélagsins samræmist kröfum Jafnlaunastaðalsins. Nú er beðið endanlegrar staðfestingar frá BSI á Íslandi (British Standards Institution) sem ætti að koma í vikunni.Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðar segir að með innleiðingu jafnlaunavottunar hjá Vopnafjarðarhreppi í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur sveitarfélagið komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
„Í jafnréttisáætlun Vopnafjarðar kemur fram að allir sem starfa hjá Vopnafjarðarhreppi skuli fá greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni. Jafnlaunavottunin er mikilvægur áfangi í að vinna að því markmiði,“ segir Sara Elísabet.
Ennfremur segir Sara Elísabet að starfsfólk Vopnafjarðarhrepps hefur unnið mikla og góða vinnu við að undirbúa sveitarfélagið fyrir jafnlaunavottunina, en sveitarfélagið naut liðsinnis Attentus – Mannauður og ráðgjöf við undirbúning og skipulag stjórnunarkerfisins. BSI á Íslandi framkvæmdi úttektir og vottaði jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.
„Vinnan við innleiðinguna hófst haustið 2019 og kláruðum við vottun 3.nóvember síðastliðinn. Vinnan fólst að mestu leyti í því að skipuleggja stjórnunarkerfi utanum jafnlaunakerfið með því að gera Jafnréttisáætlun, Jafnlaunastefnu, verklagsreglur um ákvörðun launa og fleira. Framkvæma launagreiningu, fara í úttektir og vinna að úrbótum eftir þær,“ segir Sara Elísabet.
„Nú bíðum við eftir formlegri staðfestingu BSI sem kemur á næstu dögum og sækjum við þá um leyfi til Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið.“