Vopnfirðingar glaðir: Þrjú fyrirtæki vilja leita að olíu á Drekasvæðinu

vopnafjordur2.jpg
Þrjú fyrirtæki hafa sótt um að leita að olíu á Drekasvæðinu en öðru útboði um rannsóknar- og vinnsluleyfi lauk í gær. Forsvarsmenn Vopnafjarðarhrepps fagna niðurstöðunum en olíuvinnsla á sviðinu gæti fært sveitarfélaginu gríðarlegar tekjur.

„Fyrir okkur Vopnfirðinga, nágranna okkar í Langanesbyggð, er stundin sérstaklega ánægjuleg og fari allt á besta veg gæti á næsta áratug skapast grundvöllur gríðarmikilla tekna. Leiðin er löng en sú forvinna sem þegar hefur verið unnin mun koma sér vel þegar rannsóknar- og vinnsluleyfum verður úthlutað,“ segir í frétt á vef Vopnafjarðarhrepps.

Öll félögin þrjú sem sóttu um leyfin eru íslensk að hluta.  Valiant Petroleum, sem starfar í samstarfi við Kolvetni ehf., er stærst miðað við veltu. Það er með höfuðstöðvar í útjaðri Lundúna, stundar olíuvinnsla í Norðursjó og er í olíuleit við Noreg og Færeyjar.

Faroe Petroleum var stofnað í Færeyjum fyrir fimmtán árum en er orðið alþjóðlegt og komið með höfuðstöðvarnar til Aberdeen nyrst í Skotlandi. Félagið leitar og vinnur olíu í breskri, norskri og færeyskri lögsögu. Samstarfsaðili þess er Íslenskt kolvetni ehf.

Þriðja félagið heitir Eykon . Það er óskráð en tengt alþjóðlegum fjárfestum og olíuleitarfyrirtækjum sem unnið hafa á norðurslóðum. Heiti þess tilvísun í Eyjólf Konráð Jónsson fyrrum þingmann – og honum beinlínis til heiðurs – en Eykon var einlægur baráttumaður fyrir landgrunnshagsmunum Íslendinga. 

Fleiri vilja bita af kökunni 
 
Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð eru þau sveitarfélög sem næst eru Drekasvæðinu sem skiptist milli Norðmanna og Íslendinga. Þjóðirnar hafa samið um gagnkvæman ábata eftir því í hvorri landhelginni olía finnst. Sveitarfélögin hafa undirbúið þjónustu við olíuleit, til dæmis gert ráð fyrri hafnaraðstöðu í Finnafirði. Fleiri, meðal annars sveitarfélagið Fjarðabyggð í samstarfi við fyrirtækið Olíudreifingu, hafa undirbúið slíka aðstöðu.

„Fyrir Vopnfirðinga og nágrannann í norðri ber að taka málið alvarlega og hvika hvergi frá þeim fyrirætlunum sem þegar hafa verið staðfestar í skýrslum og greinargerðum. Auðvitað var viðbúið að fleiri horfðu til verkefnisins, sem getur orðið risavaxið – og mögulega verður nóg handa öllum sem vilja bita af kökunni – en framhjá verður ekki litið að tækifæri Norðaustur hornsins er gríðarmikið og eðlilegt að þeir sem hafa um málið að segja vinni ótrauðir að verkefninu óháð hugmyndum annarra.“

Það er olía á Drekasvæðinu 
 
Orkustofnun fer yfir umsóknirnar og gefur út endanleg leyfi. Við mat stofnunarinnar er tekið mið af rannsóknaráætlun, tæknilegri getu og reynslu og fjárhagslegum styrk umsækjenda í fyrirfram ákveðnum hlutföllum.

Olía hefur fundist á Drekasvæðinu en stóra spurningin er magn hennar og hvort hún sé vinnanleg. „Útboðssvæðið nær yfir norðurhluta Drekasvæðisins sem er 42.700 ferkílómetrar að flatarmáli og staðsett norðaustur af Íslandi. Rannsóknir munu ná yfir fjölda ára, í kjölfar umfjöllunar um skilmála fyrir sérleyfi, enda eru slík sérleyfi veitt til allt að 12 ára. Innlendar tekjur á rannsóknartímabilinu takmarkast við þjónustu vegna slíkra rannsókna. Framleiðslugjald og skattlagning hagnaðar koma fyrst til eftir að vinnsla kolvetna er hafin en í kjölfar þess má vænta atvinnuuppbyggingar til frambúðar,“ segir í frétt á vef Orkustofnunar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar